Gráþrestir um allan bæ


Í óveðrinu á dögunum hefur lægðin gripið með sér töluvert af erlendum fuglum og eitthvað af þeim hefur borist inn á Norðurland. Í Siglufirði eru gráþrestir mest áberandi, eru víst um allan bæ. Á Hvanneyrarhólnum voru seinnipartinn í gær 10-20 talsins og 8 þeirra fengu í dag á annan fótinn númerað raðmerki frá Náttúrufræðistofnun Íslands, í von um að einhver nái þeim síðar, jafnvel á bakaleið, og láti vita. Einnig hefur frést af gráþröstum í Ólafsfirði.

Sennilega hafa fleiri tegundir borist með vindum. Sjáist eitthvað torkennilegt á flugi hér í görðum væri áhugavert að frétta af því.

Fólk er eindregið hvatt til að fleygja einhverju æti út handa þessum hrakningsfuglum. Þeir og hinir íslensku geta litla björg sér veitt í þessum jarðbönnum. Fyrir þresti og fleiri tegundir má setja út kramda og saxaða afganga af næstum öllum mat og séu tré í görðum er ágætt að festa epli og perur á kvisti eða greinar eða setja á nagla, sem búið er að koma fyrir á hentugum stöðum þar. Þannig hverfa ávextirnir síður undir fönn, auk þess sem kettir eiga erfiðara með að næla sér í bráð. Fyrir snjótittlinga og dúfur er kornmeti (maískurl, heilhveiti og þvíumlíkt) vel þegið, sem og brauðmolar. Auðnutittlingar þiggja smærri fræ (finkufóður, páfagaukafóður, hirsi o.s.frv.), sem og sólblómafræ. Hrafninn étur flest sem býðst, ekki síst feitmeti. Reyndar er brytjaður mör vinsæll hjá flestöllum ofannefndra tegunda, ekki síst ef kalt er í veðri. Og ósaltað smjör.

Best er að dreifa matnum um svæðið, til að sem flestir geti nýtt sér. Í heimi fuglanna er það nefnilega stundum eins og víðar, að sá frekasti hrekur aðra í burtu, ekki síst ef naumt er skammtað.

Meðfylgjandi ljósmynd var tekin í morgun.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson| sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is