Gott ilmvatn og sherryflaska

Afmælisstelpa dagsins er elsti borgari Siglufjarðar, Nanna Franklíns, en hún er 104 ára í dag. Hún dvelur á Sjúkrahúsi Siglufjarðar þar sem hún heldur upp á daginn. Hún var byrjuð að undirbúa veisluna og ræða við bakaríið um veisluföngin strax í janúar en svo kom svolítið uppá sem setti allt á ís, algert veislu- og heimsóknarbann.“

Þetta ritaði Guðmundur Jón Albertsson, systursonur hennar, í Facebook-færslu í morgun. Hún er birt hér með leyfi hans.

Og áfram segir þar: „Búið er að losa um heimsóknarbannið þannig að hún fær heimsókn í dag en bara einn. Hún er alveg sannfærð um að Siglfirðingurinn, landlæknirinn og frænkan, heilbrigðisráðherrann losi svo um heimsóknarbannið að hún geti haldið ærlega kökuveislu fyrir maílok. Það er gott að eiga hauka í horni þegar á þarf að halda. Það eina sem Nanna óskaði sér í afmælisgjöf var gott ilmvatn og sherryflaska. Það fær hún. Til hamingju með daginn Nanna! Og þeir sem eiga fána ættu að viðra hann í dag.“

Við þetta er að bæta, að Nanna er í þriðja sæti yfir elstu núlifandi Íslendinga og elst á Norðurlandi. Sex íbúar á Siglufirði hafa náð hundrað ára aldri. Aðeins Elín Jónasdóttir hefur orðið eldri en Nanna, 104 ára og 288 daga.

Mynd (úr safni) og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]
Tafla: Jónas Ragnarsson │ [email protected]