Göngum í skólann


Grunnskóli Fjallabyggðar tekur nú þátt í átakinu Göngum í skólann sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Umferðarstofa, Ríkislögreglustjórinn, Menntamálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Lýðheilsustöð og Heimili og skóli standa að. Um er að ræða allar þrjár starfsstöðvar Grunnskóla Fjallabyggðar, þ.e.a.s. tvær hér í Siglufirði og eina í Ólafsfirði.

Þetta er í þriðja skiptið sem skólar á Íslandi taka þátt í þessu alþjóðlega verkefni. Því er ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla, fara á línuskautum eða á annan virkan hátt til og frá skóla.

Átakið var formlega sett í gær en skráning byrjaði þó fyrst í morgun. Hver bekkur skráir hjá sér hverjir koma  til skóla á áðurnefndan hátt og safna stigum í 10 kennsludaga. Keppt er um hvaða bekkur hlýtur Gull-, silfur-, eða bronsskóinn. Skemmtileg hefð hefur skapast og góður andi hjá nemendum og nær spennan hámarki þegar verðlaunaafhending fer fram á sal við hátíðlega athöfn.

Þátttaka í verkefninu hefur vaxið ár frá ári. Alls hafa 48 skólar á Íslandi skráð sig til leiks að þessu sinni, fleiri en nokkurn tíma áður. Þeir eru í stafrófsröð: Akurskóli, Álfhólsskóli, Álftanesskóli, Ártúnsskóli, Áslandsskóli, Borgaskóli, Brekkuskóli, Egilsstaðaskóli, Engidalsskóli, Flúðaskóli, Foldaskóli, Fossvogsskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Grandaskóli, Grenivíkurskóli, Grundaskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar Eystri, Grunnskóli Djúpavogs, Grunnskóli Eskifjarðar, Grunnskóli Fjallabyggðar, Grunnskóli Hornafjarðar, Grunnskóli Seltjarnarness, Grunnskóli Önundarfjarðar, Grunnskólinn á Raufarhöfn, Grunnskólinn á Stöðvarfirði, Grunnskólinn á Tálknafirði, Grunnskólinn í Hveragerði, Grunnskólinn í Sandgerði, Hamraskóli, Háaleitisskóli, Hofsstaðaskóli, Hólabrekkuskóli, Hríseyjarskóli, Laugalandsskóli í Holtum, Laugarnesskóli, Lundarskóli, Norðlingaskóli, Salaskóli, Seyðisfjarðarskóli, Síðuskóli, Sjálandsskóli, Snælandsskóli, Sæmundarskóli, Vatnsendaskóli, Víkurskóli, Vopnafjarðarskóli og Öldutúnsskóli.

Kennarar  munu halda utan um skráningu þeirra sem koma í skólann næstu tvær vikurnar og að þeim loknum munu verða afhentar viðurkenningar til þeirra bekkja sem best hafa staðið sig. Eru foreldrar hvattir til að taka átakinu vel og virkja börn sín til þátttöku.

Nánari upplýsingar um átakið má finna á vefsíðunni www.gongumiskolann.is.

Þessir hraustu krakkar mættu ýmist hjólandi eða á tveimur janfnfljótum í morgun.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is