Góður árangur hjá keppendum Glóa á Íslandsmóti í frjálsum


Um síðustu helgi tóku 5 keppendur frá Umf. Glóa þátt í Íslandsmótinu í frjálsum íþróttum fyrir 11-14 ára en mótið fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Reykjavík. Tæplega 400 keppendur frá 18 félögum og héraðssamböndum voru skráðir til leiks og voru keppendur í hverri grein 25-60 talsins.

Keppendur Glóa tóku þátt í 18 greinum og náðu að bæta árangur sinn í 12 þeirra. Í helmingi greinanna sem þeir tóku þátt í náðu þeir að vera í einu af 10 efstu sætunum en vantaði herslumuninn að vera í keppni um verðlaunasæti.

Björgvin Daði Sigurbergsson keppti í 5 greinum í 12 ára flokki drengja og náði best 6. sæti í 800 m hlaupi og kúluvarpi, Patrekur Þórarinsson keppti í flokki 14 ára pilta og hafnaði í 8. sæti í kúluvarpi og varð 10. bæði í hástökki og langstökki, María Lillý Ragnarsdóttir náði best 9. sæti í kúluvarpi í flokki 13 ára stúlkna, Elín Helga Þórarinsdóttir varð m.a. 9. í hástökki og 11. í kúluvarpi í flokki 11 ára stúlkna og Sigtryggur Tristan Sigtryggsson varð m.a. 22. í langstökki. Þeir Björgvin og Patrekur settu báðir þrjú siglfirsk aldursflokkamet.


Myndir og texti: Þórarinn Hannesson | hafnargata22@hive.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is