Góðar fréttir


Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi, spurði nýverið samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, um það hvernig rannsóknum á gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta miðaði og hvenær niðurstöður yrðu birtar. Í svari ráðherra kom fram, að unnið væri að skipulagi vinnu við athugun á göngum milli Fljóta og Siglufjarðar á þessu ári, 2018.

Orðrétt sagði í svari hans og var þá miðað við kortið sem fylgir þessari frétt, héf fyrir ofan: „Vegagerðin hefur þegar kannað hvaða leiðir eru mögulegar fyrir jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar. Þær tvær leiðir sem dregnar eru upp á meðfylgjandi mynd eru helst taldar koma til greina. Á innri leiðinni milli Hólsdals og Nautadals virðast göng geta verið styttri en á nyrðri leiðinni. Hún mun leiða til þess að styttra verður frá Siglufirði til Skagafjarðar. Þar með styttast einnig leiðir til annarra hluta landsins. Engu að síður er skynsamlegt að kanna einnig hina leiðina en hún liggur nærri Siglufjarðarskarði. Þegar Strákagöng og Héðinsfjarðargöng voru gerð var aflað mikillar þekkingar á berglögum á svæðinu. Með þeirri þekkingu, sem og niðurstöðum úr yfirlitsathugunum á jarðfræði svæðisins, er ekki talin ástæða til að gera frekari jarðfræðirannsóknir að svo komnu máli. Óvissa um staðsetningu ganganna og lengd þeirra mun ráðast mikið af því hvernig best verður að koma vegi að þeim. Ýmsar aðstæður á yfirborði við gangamunna hafa mikil áhrif, svo sem hve bratt er þar og hve þykk laus jarðlög eru. Snjóflóðahætta er mikil á þessu landsvæði og getur það einnig haft áhrif ásamt fleiri atriðum. Val á stöðum fyrir gangamunna, og þar með lengd jarðganganna, skiptir mestu máli á þessu stigi. Nú er stefnt að því að velja álitlega staði fyrir munna ganganna auk þess að frumhanna vegi að þeim. Miðað er við að greinargerð um athuganir ársins og stöðu málsins verði lögð fram í lok árs 2018.“

Önnur spurning Albertínu Friðbjargar var á þessa leið: „Telur ráðherra að Siglufjarðargöng verði sett á samgönguáætlun þegar hún verður endurskoðuð?“ Og svarið var: „Samgönguáætlun 2015–2026 var lögð fram á Alþingi haustið 2016 en ekki rædd. Þar er miðað við að ráðist verði í gerð Fjarðarheiðarganga eftir að gerð Dýrafjarðarganga lýkur haustið 2020. Nú er hafin endurskoðun þessarar áætlunar og er reiknað með að ný áætlun fyrir árin 2019–2030 verði lögð fram á þingi haustið 2018.“

Mynd: Úr safni.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is