Góð heimsókn úr Þingeyjarsýslu


Um fjögurleytið í gær fékk Siglufjörður góða heimsókn enn og aftur, þegar í bæinn komu rúmlega 70 Þingeyingar. Um prívatheimsókn var að ræða, en megnið af fólkinu var þó og er í eldriborgarakórnum á Húsavík. Stjórnandi hans til margra ára, Gunnar Valdimarsson, var fararstjóri og upphaflega ætluðu bara um 40 að leggja í þessa reisu, sem hafði það að
aðalmarkmiði að fara um hin nýju jarðgöng, en svo bættist við
þegar nær dró og fyrirætlanin spurðist út.

Sveinn Björnsson tók á móti hópnum í Allanum, en hann og Gunnar eru miklir vinir og búnir að eiga samskipti lengi, eru m.a. forsprakkar kóramóts aldraðra á Norðurlandi.

Heldrimenn spiluðu og sungu undir borðhaldinu og margir fengu sér snúning að því loknu.

Þegar svo kom að brottför var hljómsveitinni afhent að gjöf nótnabók með lögum Friðriks Jónssonar tónskálds, þess sem m.a. samdi Rósina og Við gengum tvö.

Þótt veðrið hafi ekki verið upp á það besta voru gestirnir hæstánægðir með túrinn og fengu Sveinn og félagar óspart að heyra hvað Siglfirðingar væri nú miklir gleðigjafar, sem þeir auðvitað eru.

Ekki dró það úr hrifningunni hvað nú var stutt heim austur, miðað við það sem áður hafði verið.

Myndir: Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is