Góð heimsókn frá Akureyri


Í morgun komu um 100 nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri ásamt nokkrum kennurum sínum – þar á meðal Sverri Páli Erlendssyni – í reglubundna heimsókn til Siglufjarðar og litu í kringum sig á fyrirfram ákveðnum stöðum, þ.e.a.s. í húsum Síldarminjasafnsins (Bátahúsinu, Gránu og Roaldsbrakka), á Þjóðlagasetrinu og í Siglufjarðarkirkju. Var þarna um að ræða námsferð 1. bekkjar og tengist atvinnusögu landsins.

Safnaðarheimilið hefur allt frá upphafi staðið þessum gestum opið á hádeginu, þar sem hvílst er um stund og matast, og síðan niðri í kirkju þegin fræðsla um sögu fjarðarins og kristnilíf í gegnum aldirnar, náin tengsl sjómanna við þetta og önnur guðshús hér og svo rennt í gegnum nokkra helstu slagara síldaráranna í fjöldasöng, með Sturlaug Kristjánsson við hljómborðið, auk þess sem texta sr. Bjarna Þorsteinssonar, „Það liggur svo makalaust ljómandi’ á mér,” hafa verið gerð skil.

Hópurinn fyrir utan kirkjuna í dag.

Að sögn Önnu Sigríðar Davíðsdóttur, kennara, var árið 2010 tekin upp ný námskrá í MA og fylgdu henni ýmsar breytingar, m.a. var fyrsta árið stokkað upp og farið að kenna tvo stóra samþætta áfanga, menningarlæsi og náttúrulæsi. Nemendur taka annan áfangann á fyrri önn og hinn áfangann á seinni önn.

„Í menningarlæsi er búið að samþætta félagsfræði, sögu, íslensku og upplýsingatækni í einn stóran 13 eininga áfanga. Nemendur eru í menningarlæsi 15 kennslustundir á viku og þessi eini áfangi er næstum helmingur af námi 1. bekkinga. Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur læri vinnubrögð með því að vinna alls konar verkefni, bæði hefðbundum verkefnum eins og ritgerðaskrifum en einnig óhefðbundnari verkefnum þar sem skapandi hugsun nemenda fær að njóta sín. Nemendur þjálfast einnig í því að vinna saman, að skipuleggja nám sitt, sýna sjálfsaga og þrautseigju. Í áfanganum er reynt að glæða áhuga nemenda á sögu, menningu og tungumálinu, við viljum t.d. ekki að nemendum sé sama um nærumhverfi sitt, þeir eiga að hafa skoðanir á samfélaginu og helst leggja sitt af mörkum til þess að gera það að betri stað. Þetta tengist auk þess áherslunni sem lögð er á gagnrýna hugsun, að taka hlutunum ekki sem sjálfsögðum heldur spyrja sig af hverju samfélagið er eins og það er.“

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is