Gnýr hinn viðförli


Þótt Siglufjörður sé hulinn snjó þessi dægrin breytir það engu um að sumar fuglategundir eru byrjaðar að verpa og aðrar gera sig líklegar til þess. Tjaldurinn liggur t.d. á eggjum í Langeyrarhólmanum (Sæhólma). Þúfutittlingurinn kom fyrir nokkrum dögum og hrossagaukurinn líka.

Einnig hafa áður þekktir einstaklingar verið að sýna sig, þar á meðal litmerkti jaðrakaninn sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Hann var merktur sem ungi í Siglufirði 15. júlí 2008 og hefur síðan þá verið í Frakklandi, Hollandi og á Spáni í vetrarfríum, en komið upp til Íslands á vorin, eins og núna. Merkið á fótum hans er GN-YRflag, sem er skammstöfun litanna á ensku og spænsku: GREEN/NEGRO-YELLOW/RED auk þess sem hann er með veifu þar (flag). Er hann nefndur Gnýr á íslensku, vegna litasamsetningarinnar.

Þannig er hægt að rekja ferðir jaðrakananna landa á milli og eru þeir allmargir hér í firði með svona þar til gert skraut á fótum, en engir tveir með nákvæmlega sömu litum. Neðst er svo álmerki með raðnúmeri.

Undanfarið hafa verið að sjást litmerktir jaðrakanar sem ekki voru merktir hér, en hafa viðdvöl á flæðisandinum innfjarðar á leið sinni áfram vestur um. Á Leirunum voru um 160 í fyrradag, sem er met.

Þann 18. apríl var í hópi snjótittlinga í norðurbænum einn grænlenskur karlfugl, mun stærri og hvítari en þeir íslensku, en grár á baki. Slíkt er ekki algeng sjón, en snjótittlingar þaðan hafa að einhverju leyti vetrardvöl á Íslandi.

Grænlenski karlfuglinn á Hvanneyrarhólnum.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is