Glókollur í Skarðdalsskógi


Glókollur, minnsti varpfugl á Íslandi og annars staðar í Evrópu, náðist í mistnet í Skarðdalsskógi í fyrradag, 19. júní, og um fót hans var sett álmerki frá Náttúrufræðistofnun Íslands, með þar til gerðu raðnúmeri. Þar með er komin sönnun þess að fuglinn er hér yfir sumartímann og líklega verpandi.

Laugardaginn 12. mars  2011 var Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur í Siglufirði og leit m.a. við í skóginum og heyrði í einum glókolli. Undirritaður hafði séð einn þar innfrá 9. apríl 2010 og myndað (sjá hér fyrir ofan), en ekki rekist á hann síðar um vorið eða sumarið, þrátt fyrir nokkra leit. Annar var á flögri á Hvanneyrarhólnum 29. september í fyrra, svo að ljóst þótti að fuglinn væri hér a.m.k. annað veifið.

Á Vísindavefnum má lesa þetta um tegundina:

„Glókollurinn er mjög útbreiddur varpfugl í barrskógum og blönduðu skóglendi Evrasíu og virðist hann fylgja nokkurn veginn útbreiðslu þessara skógarvistkerfa. Varplönd hans ná frá Bretlandseyjum, og Íslandi síðan um miðjan 10. áratug síðustu aldar, austur um stóran hluta Evrópu og Rússlands allt austur að Kyrrahafsströnd, auk þess sem varpstofnar finnast sunnar í Asíu. Tegundin greinist í fjölmargar deilitegundir, meðal annars á Azoreyjum R. r. azoricus og Kanaríeyjum R. r. ellenthalerae. Allra nyrst er glókollurinn farfugl en staðfugl annars staðar á útbreiðslusvæði sínu. Hér á landi virðist hann halda til yfir veturinn enda má heyra í honum í frostkyrrðinni í skógarlundum víða um land.“

Meginútbreiðsla glókolls. Guli liturinn merkir sumar, sá græni hvar dvalið er árið um kring og sá blái vetrarútbreiðslu.

Glókollur er 8,5–9,5 cm að lengd og vegur ekki nema 4,5–7,0 g. Aðalfæðan er smádýr, aðallega skordýr, þar með talin sitkalús.

„Glókollur hóf líklega varp á Íslandi árið 1996 í kjölfar stórrar göngu haustið 1995. Varp var þó ekki staðfest fyrr en sumarið 1999. Nú er glókollur varpfugl í skógarlundum um allt land nema á Vestfjörðum,“ segir á heimasíðu Fuglaverndar.

Kominn með álmerkið um hægri fót sér.

Myndir: Mikael Sigurðsson og Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Útbreiðslukort: Wikipedia.org.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is