Glitbrúsi heimsækir Fljótin


Tröllaskaginn virðist ekki bara heilla mennska túrista, því enn er í fersku minni – sumra að minnsta kosti – þegar svarta krían, býsvelgurinn og gjóðurinn komu í heimsókn í Siglufjörðinn og glöddu augu þeirra sem fengu að líta.

Fljótin hafa líka verið gjöful hvað þetta varðar. Rósafinka náðist þar fyrir nokkrum árum, hjá Langhúsum, og tvær grátrönur voru á sveimi í einhvern tíma þar nærri um svipað leyti, að eitthvað sé nefnt.

En 8. þessa mánaðar sást þó mesta rarítetið á ónefndum stað þarna í vestrinu, sem var glitbrúsi (Gavia arctica), náfrændi himbrima og lóms, og er það í fyrsta sinn sem þessi fuglategund heimsækir Ísland, að óyggjandi sé.

Í bók Ævars Petersen, Íslenskir fuglar, sem út kom árið 1998, segir að glitbrúsa sé getið í rituðum heimildum frá því um og fyrir aldamótin 1900 og þá jafnvel sem íslensks varpfugls, en nú sé almennt álitið að um rugling við himbrima hafi verið að ræða. Afturhlutinn minnir enda í fljótu bragði á himbrima en framhlutinn á lóm, nema það að glitbrúsinn er ekki rauður á kverkinni, eins og lómur á varptíma, heldur svartur. Hér áður fyrr var glitbrúsi oft nefndur litli-himbrimi. Jónas Hallgrímsson kallar hann þó í fuglatali sínu norðbrúsa.

Glitbrúsi er á stærð við lóm. Nefið er samt ekki eins uppsveigt og á hinum síðarnefnda, heldur líkist fremur nefi himbrima, en er mun grennra.

Glitbrúsi er af ættbálki sundkafara en tilheyrir þaðan brúsaættinni. Sú var á liðnum jarðsöguöldum afar fjölskrúðug en hefur nú til dags einungis á að skipa fimm tegundum í einni ættkvísl. Þær eiga allar heimkynni sín á norðurhveli jarðar og eru auk glitbrúsans himbrimi (Gavia immer), svalbrúsi (Gavia adamsii), hafbrúsi (Gavia pacifica) og lómur (Gavia stellata). Einkenni þessarar ættar eru þau helst að búkur fuglanna er mjög langur og hálsinn sömuleiðis, nefið rýtingslagað, vængir litlir og stélið, og fætur staðsettir aftarlega á búknum. Fyrir vikið eru þetta afbrags sundfuglar er geta lítið farið um á þurrlendi.

Hér áður fyrr var siður að tala um lómaætt, þegar fuglana bar á góma, en svo var brúsaheitið tekið upp. Það var áður notað staðbundið yfir himbrimann í Þingeyjarsýslum. Af þessum fimm brúsategundum verpa aðeins tvær hér á landi, eftir því sem best er vitað, þ.e.a.s. himbriminn og lómurinn.

Varpheimkynni glitbrúsans eru í Evrasíu og í einstaka tilvikum í vesturhluta Alaska, eins og sést á meðfylgjandi útbreiðslukorti, sem fengið er af Wikipediu. Rauði liturinn sýnir varpheimkynnin en sá blái vetursetuna.

gavia_arctica_utbreidsla

Ljósmynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Útbreiðslukort: Wikipedia.org.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is