Gleymum ekki smáfuglunum


Nú þegar allt er á kafi í snjó hér nyrðra er fólk vinsamlegast beðið um að hugsa til smáfuglanna með einhvern glaðning. Þeir geta sér litla björg veitt í þessum jarðbönnum.

Fyrir þresti og fleiri tegundir má setja út kramda og saxaða afganga af næstum öllum mat nema grænmeti, og séu tré í görðum er gott að festa epli og perur á kvisti eða greinar eða setja á nagla, sem búið er að koma fyrir á hentugum stöðum þar. Og ósaltað smjör getur ekki brugðist.

Fyrir snjótittlinga og dúfur er kornmeti (maískurl, heilhveiti og þvíumlíkt) vel þegið, sem og brauðmolar.

Auðnutittlingar þiggja gjarnan sólblómafræ.

Og fyrir þau sem gefa hrafninum étur hann flest sem býðst, ekki síst feitmeti. Reyndar er brytjaður mör vinsæll hjá flestöllum þessara tegunda, ekki síst ef kalt er í veðri.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is