Gildi ferðaþjónustu fyrir Siglufjörð er mjög mikið


?Gildi ferðaþjónustunnar fyrir samfélag og byggð Siglufjarðar er mjög mikið. Ferðaþjónustan eykur sjálfsmynd bæjarbúa og auðgar bæjarlíf samfélagsins yfir sumartímann. Ferðaþjónustan skapar atvinnu, færir samfélaginu hagnað og byggir upp aukið þjónustustig í bænum sem heimamenn geta nýtt sér.? Þetta er niðurstaða BS-ritgerðar Alexöndru Þórisdóttur, sem hún skrifaði í námi í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og birt var á Skemmunni fyrr á þessu ári. Heiti ritgerðarinnar er ?Ferðaþjónusta á jaðarsvæðum. Búbót fyrir byggð og samfélag Siglufjarðar.?

Alexandra, sem er 24 ára og dóttir Þóris Kr. Þórissonar fyrrverandi bæjarstjóra, ræddi við sex aðila í Fjallabyggð sem þekktu til staðhátta og ferðaþjónustu á Siglufirði. Viðmælendurnir voru Egill Rögnvaldsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Skarðsdal, Finnur Yngvi Kristinsson verkefnisstjóri hjá Rauðku, Inga Eiríksdóttir fjármálastjóri og kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga, Katrín Sif Andersen framkvæmdastjóri Gistihússins Hvanneyrar, Valur Þór Hilmarsson garðyrkju- og umhverfisfulltrúi Fjallabyggðar og Örlygur Kristfinnsson forstöðumaður og safnstjóri Síldarminjasafns Íslands.

Margt forvitnilegt kemur fram í ritgerðinni svo sem aðsókn að söfnum, gistiheimili og skíðasvæði. Er ekki að efa að ritgerðin er góður grunnur fyrir uppbyggingu aukinnar ferðaþjónustu á Siglufirði.

Slóð á útdrátt úr ritgerðinni: http://skemman.is/item/view/1946/7328

Slóð á ritgerðina í heild: http://skemman.is/stream/get/1946/7328/19582/1/BS_Ritgerd_Alexandra_Thorisdottir.pdf

Siglufjörður einn fallegan nóvemberdag.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is