Gengið yfir Skarðið


Í nýjum Grunnskóla Fjallabyggðar er aðeins ein eldri deild, 7.?10.
bekkur, og fer kennsla þeirra nemenda, sem eru 135 talsins, fram á Siglufirði. Ákveðið var að
nota tvo fyrstu nemendadaga skólastarfsins til að hrista nemendur
deildarinnar svolítið saman og kynna nýjum nemendum staðhætti á
Siglufirði og nánasta umhverfi.

Á fimmtudeginum fóru allir nemendur í ratleik þar sem blandað var í hópa þannig að í hverjum hópi voru nemendur úr öllum bekkjum. Farið var á 15 stöðvar út um allan bær þar sem leysa þurfti ýmsar þrautir og eftir því sem samvinnan var betri því betri árangur. Í morgun var gengið yfir Siglufjarðarskarð, farið var með rútu úr Siglufirði, gegnum Strákagöng og inn að Heljartröð og gengið eftir veginum upp í háskarðið þar sem nemendur og kennarar fengu sér nesti. Svo var haldið áfram, gengið alveg niður í bæ og beint í kjöt og karrí á Allanum. Voru garpar þreyttir en ánægðir að lokinni góðri göngu í blíðskaparveðri.

Við þetta má bæta að stundum hefur Dalaleiðin verið farin eða gengið um Hestskarð yfir í Héðinsfjörð o.s.frv. með svipað að leiðarljósi, að auðvelda nemendum að kynnast, og ekki síður að njóta útiverunnar í mikilfenglegu og hrífandi landslagi Tröllaskagans.

Fyrri rútan mætt framan við efra hús. Í hana fóru 7. og 8. bekkur.

Lagt var af stað um kl. 08.30. Hin fór um hálftíma síðar.

Séð úr háskarðinu niður í Hraunadal.

Sumir fóru ótroðnar slóðir.

Þessi vaski Ólafsfirðingur, Gunnar Húbert, í 8. bekk, var fyrstur upp.

Hann og þau önnur sem fylgdu á eftir hvíldu sig og nærðust þar í efra

áður en niður var haldið Siglufjarðarmegin.

Þessi eru í síðustu brekkunni Fljótamegin.

Í einni skíðabrekkunni.

Seinni hópurinn að koma niður. Illviðrishnjúkur í baksýn.

Þau síðustu á niðurleið.

Í skíðaskálanum biðu þessir glaðbeittu dómarar

og færðu í bækur sínar nöfn þeirra sem skiluðu sér, sem auðvitað voru allir.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Þórarinn Hannesson | hafnargata22@hive.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is