Gengið til Siglufjarðar


Á baksíðu Morgunblaðsins í fyrradag, 7. júlí, mátti lesa, að Hjálparsveit skáta í Garðabæ ætlaði sér að ganga þvert yfir Ísland, byrja í Skógum undir Eyjafjöllum og enda á Siglufirði. Ferðin mun taka um 20 daga og telur 350 km í loftlínu. Lagt var af stað á mánudag, 6. júlí.

Fréttin öll var svofelld:

„Gangan fékk nafnið Gengið til góðra strauma, en þannig sýnum við okkar fólki hversu þétt við stöndum við bakið á því,“ segir Rakel Ósk Snorradóttir, félagi í Hjálparsveit skáta í Garðabæ, sem gengur nú þvert yfir Ísland til styrktar tveimur úr hópnum sem greindust með krabbamein á síðasta ári. Gangan hefst á Skógum og endar á Siglufirði en meðal annars verður gengið yfir Fimmvörðuháls, Laugaveginn, Austurdal í Skagafirði og yfir Tröllaskaga. Hún mun ein ganga alla leiðina en aðrir félagar í sveitinni munu bætast í hópinn á ólíkum leggjum leiðarinnar. Gönguleiðin er rúmir 350 km í loftlínu og skiptist niður á rúma tuttugu daga. Nú þegar hafa einhver áheit borist. „Allt fé sem safnast rennur beint til fjölskyldu Eyþórs og Eddu Bjarkar,“ segir Rakel Ósk, en kostnaður við veikindi sem þessi getur verið mikill og reynst fjölskyldum mjög þungbær. Styrktarreikningur er 546-26-900, kennitala er 431274-0199.

Áberandi virkir orkuboltar

„Það hefur reynst erfitt að horfa á líf tveggja meðlima taka skyndilega aðra stefnu og því vilja allir í hjálparsveitinni leggja sitt að mörkum,“ segir Rakel Ósk um styrktargönguna, en þau Edda Björk Gunnarsdóttir og Eyþór Fannberg veiktust á liðnu ári. Eyþór lést í janúar síðastliðnum eftir hetjulega baráttu við krabbameinið. „Þau hafa bæði verið áberandi félagar í hjálparsveitinni í mörg ár, lagt sitt að mörkum til þess að láta þetta göfuga starf ganga upp og ávallt verið boðin og búin að aðstoða aðra,“ segir Rakel og því hafi verið ákveðið áfall að sjá þau veikjast eða falla frá. Leiðin yfir Ísland var valin til að heiðra þátttöku þeirra í starfinu, sem var alltaf af fullum krafti og alla leið. „Þau hafa verið svo miklir orkuboltar bæði tvö að okkur langaði að gera eitthvað í þeirra anda,“ segir Sigrún Helga Flygenring, félagi í sveitinni, en Edda Björk stefnir að því að ganga síðasta spölinn með vinkonu sinni, Rakel Ósk, þegar komið er að Siglufirði. „Hún tekur einfaldlega ekki annað í mál,“ segir Sigrún.

Hörkukvendi

Rakel Ósk stóð að allri skipulagningu verkefnisins og gengur ein alla leiðina. „Hún er algjört hörkukvendi,“ segir Sigrún, en undirbúningurinn fólst í því að ganga um fjöll og firnindi í morgunsárið. „Hún hefur farið á um 137 tinda síðan hún ákvað að efna til göngunnar þann 6. júní í fyrra,“ segir Sigrún létt í bragði.

Mynd: Skjáskot úr Morgunblaðinu 8. júlí 2015.
Texti: Morgunblaðið (Laufey Rún Ketilsdóttir | laufey@mbl.is) / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is