Garðaprjón vinsælast í gangatreflinum– trefillinn fluttur á tveimur vörubílum yfir í Héðinsfjörð

– tilhlökkun er tengd opnun ganganna næsta laugardag

[Morgunblaðið, 29. september 2010]

Þegar prjóna- og saumakonur í Fjallabyggð hættu að tengja trefilsbúta í fyrrakvöld var trefillinn orðinn 11,3 kílómetrar. Eitthvað á eftir að bætast við þangað til stóri dagurinn rennur upp á laugardag er Héðinsfjarðargöng verða tekin í notkun. Þá færast bæjarhlutar Fjallabyggðar, Siglufjörður og Ólafsfjörður, nær hvor öðrum svo munar tugum kílómetra.

Fríða Gylfadóttir, listakona og bankastarfsmaður á Siglufirði, á hugmyndina að því að tengja bæina saman með handprjónuðum trefli. Tvo vörubíla þarf til að flytja trefilinn yfir í Héðinsfjörð, en umfang hans er svipað og 20 feta gáms. Trefillinn verður lagður í báðar áttir frá útsýnisstað í Héðinsfirði og bæjarstjóri Fjallabyggðar tengir síðan trefilshlutana saman og segir Fríða það táknrænt verkefni á þessum miklu tímamótum.

Hún segir að sig hafi ekki órað fyrir hinni miklu þátttöku sem varð í prjónaskapnum. ?Þátt í þessu hafa tekið hátt í ellefu hundruð manns, hérlendis og erlendis,? segir Fríða. ?Mest eru þetta konur á öllum aldri, en einnig prjónakallar og niður í 10 ára gamla stráka. Trefilsbútar hafa borist frá öllum landshlutum, en einnig frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss, Eistlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi.?

Sjálf segist Fríða hálf partinn skammast sín fyrir sitt framlag í prjónaskapnum, hún hafi prjónað tæplega 40 metra. Metið eigi kona sem hafi prjónað hátt í 400 metra langan trefil eða sem nemur hring utan um fótboltavöll. ?Þetta átti reyndar ekki að vera keppni, en mér finnst það vægast sagt merkilegt að einhver einstaklingur skuli leggja svona mikið á sig að ég verð að nefna það,? segir Fríða.

Hún segir að garðaprjón sé vinsælasta útfærslan á trefilsbútunum en engar tvær útgáfur séu eins. Þó svo að sams konar garn hafi verið sent til fólks sé hugmyndaflugið og breytileikinn mikill. Ístex hafi styrkt verkefnið á myndarlegan hátt og með því að safna peningum hafi Fríðu og félögum tekist að fjármagna kaup á garni. Margir hafi líka notað afgangs garn.

?Ég er svakalega ánægð með afraksturinn og vildi að ég hefði tækifæri til að þakka öllum persónulega fyrir þátttökuna og alla vinnuna. Athöfnin á laugardaginn þegar göngin verða opnuð verður örugglega alveg mögnuð. Ég horfi til þess dags með mikilli tilhlökkun,? segir Fríða.

Tvenn jarðgöng og vegalagning

Kostnaður yfir 7 milljarðar

Héðinsfjarðargöng
eru stærsta verkefni sem Vegagerðin hefur boðið út til þessa. Upphæð
verksamnings er um 5,7 milljarðar en heildarkostnaður verksins er
áætlaður rúmir 7 milljarðar, segir á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Framkvæmdin
styttir leiðina milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar úr 62 kílómetra í um
15 km miðað við leið um Lágheiði og úr 234 km í 15 km miðað við leið um
Öxnadalsheiði. Um tvenn göng er að ræða. Ólafsfjörður – Héðinsfjörður:
6,9 km og Héðinsfjörður – Siglufjörður: 3,7 km. Vegir eru 3,2 km þar af 2
km í Siglufirði, 0,6 km í Héðinsfirði og 0,6 km í Ólafsfirði.

Fríða Björk Gylfadóttir með trefil Fjallabyggðar sem verður saumaður við
trefil Vegagerðarinnar á hátíðinni á laugardag. Um ellefu hundrað manns
hafa lagt hönd á plóg í prjónaskapnum síðustu mánuði.

Þúsund metrar af treflum.

[Fréttin birtist upphaflega 29. september 2010 á bls. 4 í Morgunblaðinu. Endurbirt hér með leyfi.]

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Ágúst Ingi Jónsson | aij@mbl.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is