Ganga í Skútudal


Eins og lesendum ætti að vera kunnugt hleyptu fjallakempurnar Gestur Hansson og Hulda Jakobína Friðgeirsdóttir af stokkunum nýrri heimasíðu, Topmountaineering.is, í mars árið 2014. Þar buðu þau upp á gönguferðir með leiðsögn um fjöllin umhverfis Siglufjörð og gera enn. Um er að ræða „allt frá léttum dagsferðum til alvöru fjallaferða þar sem klofað er yfir fjallseggjar úr Héðinsfirði yfir í Hvanndali, auk þess sem hægt er að haga för þannig að það henti bæði áhugasviði og göngugetu þeirra sem vilja skoða þetta svæði.“

Nú er planið að ganga Skútudalinn til Héðinsfjarðar laugardaginn 18. júni og verður lagt af stað kl. 10.00 um morguninn við hitaveitudælurnar, gengið upp með Skútuánni meðfram Steindyrum og á snjó alla leið á Presthnjúk í 730 metra hæð, en þangað eru 3,4 km. Svo verður farið niður í Ámárdal og út Héðinsfjörð að þjóðvegi, þar sem bíll bíður eftir göngufólkinu. Heildarvegalengd er 8-9 km og gert ráð fyrir að gangan taki um 5 klukkutíma.

„Þar sem við göngum á snjó nánast alla leið þarf að vera á góðum gönguskóm, það er mjög gott að ganga á snjónum,“ segir Gestur.

Verð er 3.000 kr. á mann. Upplýsingar og skráning er í síma 898-4939.

„Á döfinni er síðan að vera með tvær ferðir í næstu viku. Annað er Jónsmessuganga og daginn eftir Jónsmessusigling á Siglunes, ef veður leyfir. Í júlí verður gengið á Siglufjarðarfjöllin í suður og síðan seinnipartinn í júlí verður farin ferðin Héðinsfjörður – Hvanndalir – Ólafsfjörður. Það verður betur auglýst þegar nær dregur,“ segir Gestur.

untitled

Mynd og plakat: Aðsent.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is