Gamansögur af íslenskum tónlistarmönnum


Nýútkomin bók, „Hann hefur engu gleymt … nema textunum!,“ inniheldur fjölmargar gamansögur af íslenskum tónlistarmönnum og þar á meðal siglfirskum. Höfundur er Guðjón Ingi Eiríksson og það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur út. Hér er örlítið sýnishorn.

*

Björgvin Halldórsson – Bó – var einhverju sinni að koma úr starfsmannateiti á Stöð 2. Hópurinn, sem hann var með, freistaði inngöngu á Skuggabarinn, en þar fyrir utan var löng biðröð. Björgvin ákveður því að reyna gömlu Glaumbæjaraðferðina. Hann mjakar sér meðfram þeim fremstu í röðinni, vekur athygli dyravarðarins á sér og segir við hann:

„Veistu ekki hver ég er?“

„Jú,“ svaraði dyravörðurinn, „þú ert pabbi hennar Svölu.“

*

Einu sinni sem oftar voru Ljótu hálfvitarnir með tónleika í Ólafsvík. Þeir fengu gistiaðstöðu í skólabyggingu og eftir nokkrar vel heppnaðar tilraunir í efnafræðistofunni var lagst til hvílu. Samkvæmt venju var Guðmundur Svafarsson fyrstur á fætur og vaknaði þyrstur. Þegar þorstanum hafði verið hæfilega sinnt sótti á hann hungur. Hann ákvað því að gera vel við sig, láta ekki flotbrauðið duga, og rölti sér yfir á hótel í morgunmat. Þar hrúgaði hann á diskinn alls kyns brauðmeti og áleggi og bætti svo við diski af súrmjólk sem stóð í stórri skál á borðinu. Hann fann þó fljótlega að súrmjólkin var skemmd. Hún var bæði þykk og límkennd og sérdeilis bragðvond. Kurteisi er Guðmundi hins vegar í blóð borin, svo að hann reyndi eftir fremsta megni að þræla í sig fleiri skeiðum af ónýtu súrmjólkinni, en allt kom fyrir ekki. Þetta væri ekki mönnum bjóðandi.

Af gæsku sinni og kurteisi ákvað Guðmundur að vara starfsfólkið við og benda því á þetta, svo það gæti fjarlægt hina ónýtu vöru og aðrir þyrftu ekki að lenda í hinu sama.

Þjónninn horfði íbygginn á Guðmund og hlaðborðið til skiptis og spurði varfærnislega: „Bíddu … hvar tókstu þessa súrmjólk?“

„Nú, bara þarna í skálinni,“ svaraði Gummi.

Þjónninn brosti kurteislega. Sagði svo: „Einmitt, já. En … þetta er vöffludeig!“

*

Halli og Laddi höfðu verið að skemmta með söng og sprelli á Siglufirði.  Daginn eftir ætluðu þeir með flugi þaðan til Reykjavíkur, en varla var vélin fyrr komin í loftið þegar flugstjórinn tilkynnti að henni yrði snúið við sökum þess að HREYFILL hefði stöðvast. 

Farþegunum varð talsvert brugðið við þessi tíðindi, nema Ladda, sem kallaði hátt til flugstjórans: „Af hverju hringirðu ekki bara í HREYFIL?“

*

Þegar Álftagerðisbræður tróðu upp í troðfullu Ráðhúsi Reykjavíkur á Menningarnótt sagði Pétur: „Gaman að sjá hvað margir eru komnir, úr ekki stærra plássi!“

*

Hljómsveitin Gautar var geysivinsæl og spilaði á dansleikjum víða um land. Því gátu fylgt löng ferðalög og gátu menn yfirleitt snætt í vegasjoppum og söluskálum á leiðinni í félagsheimilin. Öðru máli gegndi um heimferðina, sem iðulega var að næturlagi. Oftar en ekki gleymdu hljómsveitarmeðlimirnir þó að hafa með sér eitthvað til að gæða sér á og voru fyrir vikið orðnir ansi svangir þegar líða tók á nóttina. Þeir fundu samt ráð til að seðja hungrið þegar leið þeirra lá í gegnum Skagafjörðinn og mun Gerhard Schmidt, lengi tónlistarkennari á Siglufirði, hafa átt þar stóran hlut að máli. Þá var gjarnan stoppað við brúsapall einn í Sléttuhlíðinni. Þar supu þeir rjómann ofan af mjólkinni, sem annars beið mjólkurbílsins, og leið þeim mun betur á eftir.

*

Hljómsveit Svavars Gests naut mikilla vinsælda á sjöunda áratug síðustu aldar og spilaði meðal annars á héraðsmótum sjálfstæðismanna vítt og breitt um landið við góðar undirtektir. Eitt sinn, á ströngu ferðalagi milli dansstaða á landsbyggðinni, gerði rúta sveitarinnar stuttan stans til þess að menn gætu rétt úr sér og slappað af í guðs grænni náttúrunni. Svavar Gests hljómsveitarstjóri stjórnaði öllu af festu og öryggi og gætti þess vandlega að hljómsveitarmeðlimir væru ekki að drolla eða teygja lopann. Hann blés því til brottferðar að nýju eftir 10 mínútna stopp og þótti ýmsum það æði skammur tími. Garðar Karlsson gítarleikari var einn þeirra og dvaldist honum nokkuð við að „hlusta á lækinn sem hjalar við mosató“.

Þegar Svavar ítrekaði skipun sína kvaðst Garðar ætla að fá sér kalt vatn úr læknum og bætti svo við: „Ég ætla bara að láta renna aðeins lengur.“

Mynd: Aðsend.
Texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]