Fyrstur með leyfi norskra yfirvalda til að fljúga vélfisi þar í landi


Ragnar Mikaelsson er fæddur 1957 og uppalinn hér í bæ en flutti til Noregs fyrir um 30 árum. Hann er nýbúinn að vera í heimsókn á æskustöðvunum ásamt norskri eiginkonu sinni. Þau búa í Vestnes kommune, sem er mitt á milli Álasunds og Molde, og eiga tvo uppkomna syni.

Eftir að hafa fylgst með paramótorum eða vélfisum á lofti yfir Siglufirði í tvígang um síðustu mánaðamót og komist að því hver þar hefði verið á ferð, a.m.k. í fyrra skiptið, náði fréttamaður um Ragnar og kvaðst langa að spyrja hann út í þetta áhugamál. Það var auðsótt. Mætti pilturinn einn daginn upp að Hvanneyri með öryggisgrind, mótor og skerm og útskýrði hvernig þetta virkaði allt og lýsti tildrögum þess að hann hefði ánetjast þessu sporti.

?Eftir að ég hafði verið úti í nokkur ár sá ég óvélknúið fis og langaði að prófa,? byrjar Ragnar. ?Ég ætlaði fyrst að reyna að komast á námskeið en þau voru öll fullsetin lengi vel. Og ég var eiginlega búinn að gleyma þessu þegar konan mín hringdi heim úr vinnunni einn daginn og sagði mér frá því að nú væri verið að auglýsa. Þá hafði einhver sett auglýsingu upp á vegg á vinnustaðnum hennar. Ég hafði strax samband við viðkomandi símanúmer en þá var allt upppantað, eins og fyrr. En ég fékk samt inngöngu, fyrir náð og miskunn. ?Æi, komdu bara,? sagði þessi sem varð fyrir svörum. Þetta var fyrir 10-12 árum. Maður þurfti að fara í gegnum eitt og annað, m.a. hvað snertir veður og þvíumlíkt, að geta lesið í skýin og fjöllin og svoleiðis.?

Og svo kom næsta skref.

?Ég var búinn að fljúga í nokkur ár á venjulegu fisi, án mótors, og frétti þá af Íslendingi í næsta bæ sem væri að gera það sama. Blöðin höfðu verið að skrifa um Íslendinginn fljúgandi, héldu að það væri ég, en ég vissi betur og fór að líta á náungann. Þá var þetta Jón Atli, kunningi minn sem á heima í Póllandi (en það var einmitt hann sem var á flugi yfir Siglufirði 2. ágúst síðastliðinn). Þetta voru fyrstu kynni okkar. Hann bauð mér að prófa og þurfti ekki að spyrja tvisvar. Þegar ég svo kom niður aftur sagði ég við hann að svona myndi ég kaupa mér. Og gerði það.?

Ragnar var fyrstur til að fá leyfi norskra yfirvalda til að fljúga svona græju þar í landi.

En er þetta hættulegt?

?Já, ef þú passar ekki það sem þú átt að passa, þá getur það orðið það. Himinninn er eins og hafið, þar eru öldur sem maður sér ekki, og ef maður flýgur á bak við eitthvað, eins og t.a.m. hús, þá getur maður auðveldlega dregist niður.?

Hann kveðst aldrei hafa lent í því sjálfur, en þó dottið niður um einhverja metra út af öðru. Hann er ekki með aukafallhlíf, þótt hann í raun ætti að vera með eina slíka; en sé hann á vélarlausu fisi segir hann málið horfa öðruvísi við. Þá sé þetta engin spurning.

En skyldi vera flókið að stjórna þessu?

?Nei, en það er ljóst að þegar maður er með mótor á bakinu þarf að fara varlega, og svo er í mörg horn að líta, hendurnar þurfa að stjórna bæði skerminum og bensíngjöfinni. En flókið er það svosem ekki.?

Skermurinn er tvöfaldur, opinn að framan og mjókkar þaðan aftur. Loftið sem fer á milli heldur honum uppi, fer ekki út að aftan. Mótorinn, sem dregur svo allt saman, er um 22 kg að þyngd og tekur 11 lítra af bensíni. Á því er hægt að fljúga í 3½ tíma. Betra er ef flugmaðurinn er í þyngri kantinum, þá verður skermurinn spenntari og stöðugari.

Hvaða veður ætli séu hentugust?

?Það er best að fljúga í hægum andvara, eða svona 2-4 metrum á sekúndu, þá er létt að koma sér upp. Maður þarf ekki að hlaupa nema svona 10-20 metra, með mótorinn í gangi, og gefa svo í eftir að á loft er komið. Og albestu skilyrði eru þegar það er alskýjað, ekki þegar heiðskírt er, sól og fallegt veður. Og vonlaust í rigningu.?

Á sumrin þarf maður ekki að vera neitt sérstaklega klæddur, gæti þess vegna verið á stuttbuxum, en á veturna þarf að búa sig vel, í hlífðargalla eða álíka, og hafa góða vettlinga, því mikið reyni á fingurna; hendurnar séu mikið upp í loft, haldandi um alla tauma, og því sé erfitt ef við bætist aukakuldi.

En hvernig er að lenda?

?Ekkert mál, ef ekki er þeim mun hvassara,? segir Ragnar. ?En maður verður að passa að lenda á móti vindinum, ekki undan honum, því annað gæti verið hættulegt, hraðinn er svo mikill, 50-60 km á klukkustund; þá er það beint á magann.?

Hann hefur því iðulega með sér litla veifu til að sjá hvaðan vindurinn blæs.

?Úti í Noregi þarf að hringja í flugturninn og láta vita þegar maður ætlar að fara á loft. En maður hefur sama rétt og þyrlur og flugvélar þarna uppi; þær geta ekki látið sem þú sért ekki þarna, verða að taka tillit til þín. Ég veit ekki hvernig það er á Íslandi.?

Eru margir sem leggja stund á þessa iðju hér á landi?

?Ég veit um einn á Ólafsfirði og 3 eða 4 á Akureyri. Og held að það séu nokkrir í Reykjavík og kannski víðar. En þeir eru ekki margir. Ég er svolítið hissa á að ekki skuli fleiri stunda þetta, þetta er svo gaman, að vera þarna uppi og horfa yfir.?

Hann kveðst vera búinn að taka mikið af myndum í Noregi, fleiri þúsund, hringinn í kringum þar sem hann býr, og hefur verið að sýna fólki. ?En það þekkir yfirleitt ekki húsin sín. Þetta verður svo öðruvísi úr lofti,? segir hann og brosir.

Og skemmtilegast finnst honum þegar 2-3 eru að fljúga uppi á sama tíma og eitthvað lengra.

En hvað ætli svona tæki kosti?

?Mótorinn kostar um 35.000 norskar krónur og skermurinn 20.000-22.000 norskar. Skermurinn er úr gríðarsterku efni og línurnar eða snúrurnar gerðar úr fíberþráðum. Hver um sig eiga þær að geta haldið miklum þunga, þær sverustu 150-170 kg.?

Og Ísland hentar alveg eins og Noregur fyrir þetta gaman. Sjálfur er Ragnar aðallega í Siglufirði og inni við Máná, þegar hann er hér á landi.

Þar höfum við það.

Skermurinn kemst auðveldlega í farangursrými bifreiðar.

Mótorinn er um 22 kg að þyngd og bensíngeymirinn tekur 11 lítra.

Það dugar til flugs í 3½ tíma.


Fyrst er að koma öryggisgrindinni saman.


Annað sjónarhorn.


Svo þarf að festa hana á mótorinn.


Hér sést hvernig það er gert.


Ragnar heldur á bensíngjöfinni.


Drepið er á vélinni með því að ýta á rauða takkann.


Þarna í festist skermurinn.


Sætið er úr mjúku efni og er dregið undir sitjandann, eftir hlaupin.


Annað sjónarhorn.


Sýnikennsla. Mótorinn í gangi. Krafturinn er feiknarlegur.


Ragnar festir á sig grind og mótor.


Og sýnir hvernig á að koma sætinu undir við flugtak.


Breitt úr skerminum. Hann og annað tilheyrandi var fengið að láni í Varmahlíð,

því erfitt er að þurfa að dröslast með svona græju alla leið
frá Noregi til Íslands.Skermurinn er 12 metra langur, eða 29 fermetrar í allt.


Hér má sjá götin fremst á honum.


Og aftur hér. Loftið sem fer inn kemst ekki út að aftan og heldur skerminum uppi.


Hvítu milliskilrúmin eru úr stífara efni en annað í þessu plaggi.


Þarna sést eitt betur.


Og tvö hér.


Línur eða snúrur – gular, bláar og rauðar – eru missverar.

Passa verður að þær flækist ekki, annars getur illa farið.

 

Hér sjást þær aftur.


Þær rauðu eru sterkastar, þola hver og ein 150-170 kg þunga.


Þær koma saman í þremur lykkjum.


Ragnar heldur um stjórnartaumana.


Mótorinn kominn í gang.

Beðið eftir rétta augnablikinu til flugtaks, smá golu.

Næstu 10 myndir voru teknar á 5 sekúndum.


Svo er hlaupið á móti vindinum á fullu spani.


Skermurinn farinn að lyftast.


Nokkurn veginn laus frá jörðu.


Kominn hærra.


Og enn hærra.


Áfram er hlaupið.


Og lengra.


Skermurinn kominn upp.


Og tekur greinilega í.


Og stutt í að Ragnar takist á loft.


Eftir notkun þarf að ganga vel frá.


Þetta minnir á svefnpoka að umfangi.


Og hér er svo flugkappinn og útbúnaður hans.


Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is