Fyrsti vetrardagur

Hross á Höfðaströnd

Þá er veturinn kominn. Kári var þó mættur nokkru áður hér nyrðra, eins og mannfólkið og önnur dýr, þ.m.t. hrossin á myndinni hér fyrir ofan, í beitarhólfi á Höfðaströnd, fengu að kynnast á þriðjudaginn var, þar sem þau misánægð létu hríðarkófið yfir sig ganga. Einhver þeirra munu vera siglfirsk.

Samkvæmt gömlum heimildum voru mánaðanöfn á Íslandi til forna eftirfarandi:

1. Þorri, u.þ.b. 12. janúar – 11. febrúar.
2. Gói, u.þ.b. 12. febrúar – 11. mars.
3. Einmánuður, u.þ.b. 12. mars – 11. apríl.
4. Gaukmánuður/sáðtíð, u.þ.b. 12. apríl – 11. maí.
5. Eggtíð/stekktíð, u.þ.b. 12. maí – 11. júní.
6. Sólmánuður/selmánuður, u.þ.b. 12. júní – 11. júlí.
7. Miðsumar/heyannir, u.þ.b. 12. júlí – 11. ágúst.
8. Tvímánuður/heyannir, u.þ.b. 12. ágúst – 11. september.
9. Kornskurðarmánuður/haustmánuður, u.þ.b. 12. september – 11. október.
10. Górmánuður, u.þ.b. 12. október – 11. nóvember.
11. Ýlir/frermánuður, u.þ.b. 12. nóvember – 11. desember.
12. Jólmánuður/mörsugur/hrútmánuður, u.þ.b. 12. desember – 11. janúar.

Nákvæm dagsetning var þó mismunandi eftir árum.

Síðar þróuðust nöfnin yfir í það sem við heyrum nú oftast talað um sem hin gömlu mánaðanöfn. Og jafnframt breytist dagsetningin, miðað við okkar tímatal; öllu seinkar. En mánaðaheitin eru sumsé þessi:

1. Þorri byrjar föstudag í 13. viku vetrar (19. – 26. janúar).
2. Góa byrjar sunnudag í 18. viku vetrar (18. – 25. febrúar).
3. Einmánuður byrjar þriðjudag í 22. viku vetrar (20. – 26. mars).
4. Harpa byrjar sumardaginn fyrsta, fimmtudag í 1. viku sumars (19. – 25. apríl).
5. Skerpla byrjar laugardag í 5. viku sumars (19. – 25. maí).
6. Sólmánuður byrjar mánudag í 9. viku sumars (18. – 24. júní).
7. Heyannir byrja á sunnudegi 23. – 30. júlí.
8. Tvímánuður byrjar þriðjudag í 18. viku sumars (22. – 29. ágúst).
9. Haustmánuður byrjar fimmtudag í 23. viku sumars (20. – 26. september).
10. Gormánuður byrjar fyrsta vetrardag, laugardag í 1. viku vetrar (21. – 28. október).
11. Ýlir byrjar mánudag í 5. viku vetrar (20. – 27. nóvember).
12. Mörsugur byrjar miðvikudag í 9. viku vetrar (20. – 27. desember).

Mynd og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]