Fyrsti svartþrastarungi fjarðarins


Óvenju mikið var um svartþresti hér í firði í vetur. Hefur þeim litist dvölin vel, því einhverjir ákváðu að freista gæfunnar og stofna til hjúskapar. Á a.m.k. tveimur stöðum í bænum, á Eyrinni og á Hvanneyrarhólnum, hefur í sumar sést til þeirra vera að bera ánamaðka í tré, sem þýðir bara eitt: að þeir séu með unga.

Fjórða þessa mánaðar, seint um kvöld, sá Mikael Sigurðsson, 13 ára, svo einn nýfleygan og tiltölulega gæfan svartþrastarunga í garði við Hvanneyrarbraut 44 og náði af honum mynd. Þessi sem hér fylgir var tekin nokkrum augnablikum síðar; var ungfuglinn þá kominn upp í reynitré í næsta garði norðan við.

Aftur sást til hans í gærkvöldi og voru foreldri hans þá með honum.

Svartþrösturinn er því fyrir víst orðinn siglfirskur varpfugl.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is