Fyrsti rafbíllinn á Siglufirði


„Ég hef haft þá skoðun frá unglingsárum að á Íslandi ætti ekki að þurfa að nota jarðeldsneyti, eins og dísilolíu og bensín, þar sem aðgangur að náttúruvænni orku væri á Íslandi og hlutfallslega ódýr. Með tilkomu raforkuvera frá fallvötnum og hverum má fá næga sjálfbæra og umhverfisvæna orku. Ég taldi lengi vel að rafgreining vatns og þannig framleiðsla vetnis yrði leiðin sem væri fær og vetnið yrði orkugjafinn á ökutækin, en fyrir u.þ.b. tveimur áratugum var mér ljóst að rafmagnsbílar yrðu líklega lausnin að þessu gamla markmiði mínu. Síðan hef ég, og reyndar Anna eiginkona mín einnig, haft brennandi áhuga á að fá okkur rafmagnsdrifinn bíl.“

Þetta segir Valþór Stefánsson, yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar, en hann og eiginkona hans, Anna Sigurbjörg Gilsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur og gæðastjóri á sömu stofnun, keyptu sér nýverið rafdrifna bifreið frá Hollandi, Teslu, og eru í skýjunum.

Fjórhjóladrifinn rafmagnsbíll

„Þegar ég var unglingur gerði ég tilraunir með rafgreiningu og framleiddi vetni, kynnti mér leiðir og vandamál í kringum meðferð vetnis og gerði ýmsar tilraunir þar líka. Ég hafði þá stefnu að gerast virkjunarverkfræðingur til að tryggja framgang málsins á Íslandi og get sagt að karl faðir minn heitinn, Stefán Valgeirsson, fyrrum alþingismaður, studdi mig dyggilega. Hann meira að segja tjáði vonbrigði sín þegar ég hóf að læra læknisfræði í stað virkjunarverkfræði. Vissulega beygði ég af áður einbeittri stefnu en hætti aldrei við hugmynd með framtíðarorkugjafa á farartæki landsins.“

Valþór kveðst framan af hafa haft áhyggjur af langdrægni rafmagnsbíla þegar þeir komu til sögunnar, þar sem rafhlöðurnar voru ekki það öflugar til að byrja með og því ekki hægt að komast svo langt á einni hleðslu.

„Fyrir tveimur árum kom að því. Við búum á Siglufirði og eigum oft erindi til Reykjavíkur, Akureyrar og Neskaupstaðar. Með Nissan Patrol-dísiljeppa, stóran og mikinn og umhverfissóða samkvæmt Evrópustaðli og sem nú er bannað að flytja inn til Evrópu vegna þess. Við höfðum heyrt af Nissan Leaf, rafmagnsbíl, að hann væri lítill og nettur og kæmi vel út og væri góður í borginni. Þegar við skoðuðum málið betur hefði sá bíll aðeins nýst í höfuðborginni og í kring og dugað í mesta lagi 20% af akstri okkar, þar sem drægni á rafhlöðu dugði bara á höfuðborgarsvæðinu. Þá heyrðum við af Teslu, rafmagnsbíl sem væri dýrari en hefði drægni upp á á.a.g. 500 km á rafhlöðunni og væri fjórhjóladrifinn og með slétta plötu í botninn og nokkuð duglegur í snjó. Hann gæti hugsanlega dugað nánast 100% af okkar notkun.“

Þann 4. maí 2015 pöntuðu þau Teslu Model S fjórhjóladrifinn rafmagnsbíl í gegnum Even, íslenskt fyrirtæki í Smáralind. „Við héldum þá að Even hefði umboðssölu fyrir Teslu á Íslandi, sem reyndist ekki vera rétt. Þótt við hefðum greitt Even 2/5 af heildarverði bílsins reyndust þetta svikin kaup, Even varð gjaldþrota og við sátum eftir Teslulaus. Í desember 2016 sáum við að Tesluna fengjum við ekki og pöntuðum nú nýjan bíl beint í gegnum heimasíðu Tesla Motors en þar var okkur vísað á afhendingarstaðsetningu og þjónustu frá Tilburg í Hollandi. Nú gekk allt eins og í sögu og bíllinn var afhentur frá Tilburg í Hollandi í maí síðastliðnum. Reyndar var afhending á Íslandi seinleg vegna seinnar afgreiðslu í kerfinu, en allt gekk þetta að lokum,“ segir Valþór.

Í mars á þessu ári fóru þau hjónin til Tilburg til að fá kennslu á Tesluna áður en þau fengju hana afhenta á hafnarbakkanum á Íslandi.

„Þegar kennslunni var lokið og við komin á hótelið okkar í Tilburg pöntuðum við okkur leigubíl, ætluðum í miðbæinn. Leigubíllinn kemur og reyndist vera Tesla og það vakti hrifningu okkar. Leigubílsstjórinn tjáði okkur að það væri frekar algengt í Hollandi. Ég spurði hvernig bíllinn reyndist í leigubílaakstri. Hann sagðist hafa átt Tesluna í tvö ár og keyrt 300.000 km. Hann sagðist ekki hafa neinn kostnað í viðhaldi og ekki heldur í rafmagni, því hann hleður frítt á öllum Tesla-hraðhleðslustöðvum. Umræddar stöðvar eru u.þ.b. fjórum sinnum hraðvirkari en þær hröðustu á Íslandi og eru út um allt í Evrópu og Norður-Ameríku.“

Höfuðborgarmiðað

Þeim hjónum finnst áherslurnar á rafmagnsvæðingu bíla á Íslandi hafa verið mjög höfuðborgarmiðaðar síðustu árin og því ekki ákjósanlegur kostur fyrir notkun hreinna rafmagnsbíla á landsbyggðinni. Þar hafi fólk frekar valið hybrid- eða twin-bíl, þ.e. rafmagn að hluta.

Valþór bætir við að ýmsir hafi talað um Teslu hér á Íslandi eins og um lúxusbíl sé að ræða. „Vissulega er þetta mjög góður og öruggur bíll en er einfaldlega bíllinn sem dugar í verkefnin ef innviðir eru í lagi. Þegar heildarkostnaður rafmagnsbíla er gerður upp til langs tíma, þá eru þeir klárlega ódýrari kostur.“

Hann segir eftirtektarvert hvernig Norðmenn hafi farið að í rafbílavæðingunni. Þeir hafi skipulagt sig mun betur strax í upphafi en Íslendingar og byrjað á að bæta innviðina auk þess að gera margs konar hvata fyrir fólk til að fá sér rafbíla frekar en aðra bíla.

„Norðmenn hafa áttað sig á kostum Teslunnar. Þeir átta sig á að gott aðgengi þarf að vera til þjónustu og hleðslu og stuðluðu markvisst að því að það yrði í lagi þó að Tesla Motors væri rekstraraðilinn í því, enda eru um 15.000 Teslur í Noregi á sama tíma og 60 Teslur eru á Íslandi en sú tala ætti að vera ríflega 1.000 á Íslandi miðað við höfðatölu í Noregi. Engin rök eru fyrir því að við séum eftirbátar Norðmanna í þessu efni.

Við finnum að eftir þetta skref munum við aldrei snúa til baka. Uppbygging hraðhleðslustöðva út um land er að taka við sér og við treystum því að það haldi áfram og einnig komi fyrr en varir Tesla-hraðhleðslustöðvar á Íslandi. En enn þá þarf að taka á reglugerðum sem snúa að rafmagnsmálum fyrir rafbíla í íbúðarhúsnæði, ekki síst fjölbýli. Það á ekki að búa til lagalegar hindranir fyrir fólk sem vill fá sér rafbíla. Það er grundvallaratriði fyrir löggjafarþing okkar, Alþingi, og stofnanir landsins að taka á þessu. Reynum að læra af Norðmönnum. Okkur finnst mjög góð viðleitni löggjafavaldsins að ívilna í skattlagningu við kaup á rafbílum en finnst um leið alveg óþarfi að setja á sérstakan skatt á Tesla-rafbíla umfram aðra rafbíla. Ég skil ekki hugsanagang löggjafarþingsins með þá mismunun. Þetta gerðu Norðmenn ekki.“

Viðtalið í Morgunblaðinu í dag.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson| sae@sae.is.

 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is