Fyrir 80 árum


Aðfaranótt fyrsta vetrardags, 27. október [1934], gekk mikið sjávarflóð og brim meðfram öllu Norðurlandi og olli miklu tjóni. Einna mest tjón varð á Siglufirði. „Sjávarflóðið var svo mikið að flæddi yfir nærri því alla eyrina. Gekk sjórinn inn í fjölda húsa svo fólk varð að flýja heimili sín í dauðans ofboði,“ segir í Morgunblaðinu 28. október. Svo hátt var flóðið að á Lækjargötunni „var vatnið mittisdjúpt“. „Í sumum húsum varð vatnið svo hátt að rúmstæði flutu upp,“ segir í Einherja 2. nóvember. Í Siglfirðingi segir 3. nóvember: „Braut sjórótið ásamt stórflóði meirihluta allra bryggja og söltunarpalla á austanverðri Eyrinni og víðar.“ Morgunblaðið segir: „Á Siglunesi tók sjórinn alla báta, sem þar voru, braut nokkur hús og eyðilagði vergögn.“ Ennfremur eyðilagðist þar ný bryggja. Aðrar heimildir herma að sjór hafi fallið yfir Siglunes og ekki munað miklu að bryti að fullu burt eiðið þar sem nesið er lægst. Þá brotnaði einnig norðan af strönd nessins og vestan af því. Sagt er frá því í Siglfirðingi 1. desember að tjón „af völdum veturnóttafárviðrisins“ hafi verið metið og að 68 tjónþolar hafi gefið sig fram.

 

Mynd: Skjáskot af forsíðu Alþýðublaðsins 28. október 1934.
Texti: Þ. Ragnar Jónasson: Siglfirskur annáll, 1998.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]