Furðuskepna úr hafinu


Í gær var hlutalandað úr Mánabergi ÓF 42 í Reykjavík eftir góða karfaveiði á Reykjaneshrygg, að því er kemur fram á heimasíðu Ramma hf. í morgun. Heildarafli eftir tveggja vikna veiðiverð var um 425 tonn og áætlað aflaverðmæti um 150 milljónir króna. Að lokinni löndun hélt Mánaberg strax aftur til karfaveiða á hryggnum.

Þá hefur rækjuveiði verið að glæðast. Múlaberg SI 22, Siglunes SI 70 og Sigurborg SH 12 hafa öll verið að koma með góðan afla til Siglufjarðar síðustu daga. Múlaberg landaði 44 tonnum af rækju og 20 tonnum af bolfiski á sunnudag, Siglunes um 20 tonnum af rækju í gær og nú er verið að landa 50 tonnum úr Sigurborgu. Öll rækjan er unnin í rækjuvinnslu Ramma á Siglufirði.

Furðuskepna kom reyndar í síðasta troll Múlabergs á rækjumiðunum, nánar tiltekið á Strandagrunni, norðvestan við Hornbankann (67°00 N og 20°00 V), á 170-180 faðma dýpi. Kristján Elís Bjarnason skipstjóri kannaðist ekki við fenginn en tók mynd og sendi vefnum.

?Þetta er krabbadýr af ættbálki jafnfætla (Isopoda) sem kemur stundum inn á borð hjá okkur, stundum úr botnsleðum, rækjutrolli og stundum í fiskmögum, t.d. grálúðu,? sagði Karl Gunnarsson sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun þegar Siglfirðingur.is leitaði til hans í gær um upplýsingar. Einnig hefur það fundist í maga þorsks sem og fuðriskils sem er af marhnútaætt og hefur veiðst norður af landinu. ?Það er sérstakt og eftirtektarvert við krabbadýrið að þegar afkvæmin eru klakin, hanga þau á fálmurunum og þroskast þar.?

Umrætt kvikindi, sem lítið er vitað um en hefur til þessa fundist á 9-1.146 metra dýpi, á norðurhveli jarðar, einkum í köldum sjó, hefur ekki enn fengið íslenskt nafn en heitir á latínu Arcturus baffinii.

Kristján Elíasson hefur lagt til að það verði upp frá þessu kallað Visneskóngur, skipstjóra Múlabergs til heiðurs, og er það við hæfi.

Útbreiðslukort má sjá hér (eftir því sem rauði liturinn er dekkri þeim mun algengara er krabbadýrið). Athygli vekur að engar heimildir eru frá Íslandi þarna. Fleiri myndir eru hér.

Nánari fróðleikur er svo á þessari vefslóð.


Svona lítur furðudýrið út. Svarti díllinn í miðju er auga. Vinstri hlið snýr að myndavélinni.

Eintökin sem úr rækjutrollinu komu voru tvö.

Múlaberg SI 22 á leið á miðin í gærkvöldi.

Skyldi eitthvað torkennilegt koma upp úr djúpinu núna?


Ljósmynd af furðudýri: Kristján Elís Bjarnason.

Ljósmynd af Múlabergi og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is