Fríða með handgerð páskaegg


Fríða Björk Gylfadóttir, listakona á Siglufirði, opnaði  súkkulaðikaffihús 25. júní í fyrra, eins og lesendum Siglfirðings er eflaust kunnugt, enda var tekið við hana ítarlegt viðtal af því tilefni og birt hér. Þar kom m.a. fram, að hún er fædd árið 1965. Árið 1979 lék hún aðal kvenhlutverkið, eina af fjórum eiginkonum biskupsins, í sjónvarpsmynd í þremur hlutum sem gerð var eftir sögu Halldórs Laxness, Paradísarheimt. Hún var þá ekki nema 14 ára gömul.

Hún flutti norður í gamla síldarbæinn 1993.

Fyrir um áratug setti hún upp vinnustofu í Túngötu 40a, gegnt íbúðarhúsi sínu, og klæddi það Morgunblaðinu að utanverðu. Þar inni vann hún að margskonar listsköpun næstu árin. Einhvern daginn fékk hún svo þá hugmynd að prjóna trefil, sem átti að ná frá miðbæ Siglufjarðar til miðbæjar Ólafsfjarðar, þegar búið væri að opna Héðinsfjarðargöngin, sem gerðist 2. október 2010, og tengja þannig saman byggðakjarnana tvo sem mynda Fjallabyggð. Þetta takmark náðist með hjálp yfir 1400 manns, frá Íslandi og víða annar staðar að úr heiminum. Trefillinn varð 11,5 kílómetra langur.

Fríða var kjörin Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2015.

Sló í gegn

Kaffihúsið hennar, sem ber nafnið Frida, er í gömlu vinnustofunni og skreytti hún það allt að innan í stíl við það sem var og er að utan. Reksturinn sló samstundis í gegn, svo að fljótlega varð ljóst að stækkunar væri þörf. Var ráðist í þær framkvæmdir í nýja árinu og þeim lokið fyrir skemmstu; nýi hlutinn var opnaður um þarsíðustu helgi.

„Ég hef verið mjög upptekin, það er búið að vera mikið að gera, mikið líf og mikið fjör, allskonar stemmning skemmtileg – bókaáritun, brúðkaup, námsmenn hafa komið hingað og setið og lært og fengið orku úr súkkulaðinu o.s.frv.,“ segir Fríða, þegar hún er spurð um hvernig síðustu mánuðir hafi verið. Og þetta eru jafnt Íslendingar sem útlendingar.

Og um viðbótina, suðvestur af meginsalnum, segir hún: „Það voru svo margir dagar þar sem fólk varð að snúa frá vegna þess að fullt var út úr dyrum og það komst ekki að. Um leið, af því að þessi nýja viðbygging er sérherbergi, þá skapast líka möguleiki á því að leigja það út sér fyrir litlar veislur eða fundi, hópa sem vilja fá að vera afsíðis.“

Búið er að setja kaffihúsið inn á dagskrá skemmtiferðaskipanna sem væntanleg eru til Siglufjarðar á árinu; gert er ráð fyrir því fyrsta 19. maí og svo hinum einu af öðru í sumar og alveg fram til 11. september.

Páskaegg

Það sem Fríða hefur verið að bjóða upp á til þessa eru handgerðir bjórkonfektmolar, gráðaostakonfektmolar, rúgbrauðskonfektmolar, sítrónukonfektmolar og fleiri gerðir auk margs annars. Hún býr þetta allt til sjálf. Súkkulaðið kemur allt frá hinum þekkta framleiðanda Callebaut í Belgíu. Og núna fyrir páskana ákvað hún að bjóða upp á handgerð páskaegg líka.

Hvernig skyldi það hafa komið til?

„Er það ekki bara partur af því að gera súkkulaði?,“ svarar Fríða brosandi. „Ég byrjaði reyndar allt of seint á þessu og hef því ekki getað annað eftirspurninni, enda í mörg önnur horn að líta. En ég tel mig hafa valið afar skemmtileg mót.“

Og það eru engar ýkjur. Og litirnir koma þægilega á óvart, eins og flest allt sem listakonan tekur sér fyrir hendur, þar sem m.a. gefur að líta appelsínugulan farva og bleikan.

„Í hverju eggi eru tveir handgerðir molar. Ég vonast til að geta verið komin með málshætti á næsta ári og vonandi aðra stærð líka, þetta er minni týpan,“ segir hún. „Og auðvitað er súkkulaðið frá Callebaut. Mér finnst það vera toppurinn.“

En er eitthvað vinsælast?

„Ég hef varla undan við að búa til karamellusúkkulaðiplöturnar með trönuberjunum. Jú, jú, og svo eru alltaf ákveðnir molar sem eru vinsælli en aðrir. Og þeir sem þora fara í gráðaostamolann.“

Og blaðamaður fékk nú að smakka einn glænýjan á markaðnum. Sá nefnist Pabbinn, er úr hvítu súkkulaði að utan en með karamellusúkkulaði og kaffi inni í. Hann var góður.

Svo er annar á leiðinni í söluborðið. Sá að heita Agnes. Þar verður skelin hvít en bláber inni í.

Fríða kveðst líta björtum augum til framtíðarinnar. Enda ekki annað hægt.

Þýskur blaðamaður hefur boðað komu sína eftir páska.

Og svo er kominn hundakofi út í garð.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Greinin í Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is