Fríða Björk í Paradísarheimt


Fríða Björk Gylfadóttir, Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2015, kann ýmislegt fyrir sér. Það eru engin ný tíðindi. Eflaust kemur Héðinsfjarðartrefillinn stórkostlegi fyrstur upp í huga margra, en saga hennar er miklu dýpri en það. Til að fá örlitla nasasjón af því sem hún hefur verið að fást við í gegnum tíðina er ágætt að líta inn á vinnustofu hennar í Túngötunni. Þar kennir nefnilega ýmissa grasa. Og alltaf er hún að prófa eitthvað nýtt.

Það er ekki á margra vitorði að árið 1979 lék Fríða Björk í sjónvarpsmynd í þremur hlutum sem gerð var eftir sögu Halldórs Laxness, Paradísarheimt. Hún var þá ekki nema 14 ára gömul.

Paradísarheimt segir frá Steinari Steinssyni, bónda í Steinahlíðum. Hann hverfur frá búi sínu og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, þar sem hann telur sig hafa fundið fyrirheitna landið, hinn endanlega sannleika.

„Ég bara rakst á þetta í Morgunblaðinu á sínum tíma að það ætti að fara að kvikmynda Paradísarheimt og þar kom fram að það vantaði fólk í hitt og þetta hlutverkið og þar á meðal statista og af því að ég var með afbrigðum feimin ákvað ég að sækja bara um það síðast nefnda,“ sagði Fríða þegar tíðindamaður Siglfirðings.is leit til hennar í liðinni viku til að forvitnast um hvernig þetta hefði komið til.

„Ég plataði ömmu til að fara með mér af því að ég þorði ekki að fara ein, ég var bara 13 ára. Hún samþykkti og við fórum. Svo var hringt í mig kvöldið eftir og ég beðin um að koma aftur. Svo um vorið, þegar ég var orðin 14 og fermd, þá var enn hringt og mér boðið aðal kvenhlutverkið, að leika Steinu, eina af fjórum eiginkonum biskupsins. Þetta var hálfgert ævintýri. Þetta var tekið víða, og ég var ekki með alls staðar, en ég fór til Bandaríkjanna, þar sem var byggt heilt þorp inni í eyðimörk í Utah, utan um atriðin sem átti að taka. Þetta var alveg magnað svæði. Og svo fór ég til Þýskalands, nokkur atriði voru tekin í snekkju á Norðursjó. Á Íslandi voru útiatriðin tekin fyrir austan, við Hvalnes. Inniatriðin hér og þar, m.a. í Ármúlanum og á Keldum.“

Í kvöld kl. 21.45 er fyrsti hluti Paradísarheimtar á dagskrá Ríkissjónvarpsins, og hinir tveir verða svo sýndir 29. nóvember og 6. desember.

Hér fyrir neðan má svo líta nokkra dýrgripi úr myndaalbúmum Fríðu, með góðfúslegu leyfi hennar.

Í Steinahlíðum.

Á Keldum, mætt hjá sýslumanni.

Á tökustað fyrir austan. Bærinn í Steinahlíðum í bakgrunni.

Á Keldum.

Steina eignaðist barn eftir heimsókn Björns á Leirum að Steinahlíðum.

Teikning búningahönnuðarins af búningi Steinu.

Í Utah, milli taka. Kvikmyndatökumaðurinn Frank Banuscher næst yst til hægri.

Fríða og Jón Laxdal (Steinar) ásamt Rolf, leikstjóra og fleirum sem unnu við kvikmyndatökuna.

Í Utah. Verið að fara að kvikmynda kröfugöngu mormóna fyrir fjölkvæni.

Í Utah. Verið að æfa fyrir kvikmyndatökuna af kröfugöngunni.

Í Utah. Fjórar konur Þjóðreks biskups og fleiri.

Í Utah.

Myndir: Úr myndaalbúmi Fríðu Bjarkar Gylfadóttur.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is