Framandi vor- og sumargestir


Ýmsir gestir fuglaríkisins hafa litið í Siglufjörð þetta vorið og sumarið og þar á meðal eru tegundir sem verða að teljast mikið fágæti.

Gargandarsteggur var t.d. hér á Leirunum í byrjun maí en ekki nema í örfáa daga þó. Íslenski varpstofninn telur ekki nema 400-500 varppör.

Tveir grafandarsteggir og ein kolla voru hér um svipað leyti og dvöldu lengur og eru kannski hér innfjarðar. Íslenski varpstofninn telur ekki nema um 500 varppör.

Nokkrir rauðbrystingar, umferðarfarfuglar sem koma við á Íslandi á leið sinni á varpstöðvar á Grænlandi og Norður-Kanada, voru austan flugvallarins 10. maí. Þeir  hafa vetursetu við strendur Vestur-Evrópu, aðallega á Bretlandseyjum.

Einnig voru tildrur  á Leirunum í maí; þær eru sömuleiðis á ferð á varpstöðvar á Grænlandi og Norður-Kanada. Þær koma flestar frá Bretlandseyjum en sumar allt frá Máritaníu í Norðvestur-Afríku.

Í síðustu viku kom svo þórshani í heimsókn. Hann er einn sjaldgæfasti varpfugl landsins.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is