Frábær helgi á Pæjumótinu


Pæjumót SPS og Rauðku fór fram um helgina í blíðskaparveðri á Siglufirði. Stúlkur í 6. og 7. flokk tóku þátt á mótinu ásamt því að fram fór systkinamót hjá 8. flokks krökkum. Knattspyrnuleikir hófust á laugardagsmorgun og var spilað til kl. 16.00. Eftir að leikjum lauk nýttu margir tækifærið og skelltu sér í sund eða í hoppukastala á Rauðkulóðinni. Laugardagskvöldinu lauk síðan með skemmtidagskrá þar sem Danni og Stúlli spiluðu áður en Latibær kíkti í heimsókn. Skemmtunin var vel sótt af keppendum og fylgdarliði sem og öðrum gestum á Siglufirði og góð stemmning myndaðist. Á sunnudeginum var spiluð knattspyrna frá því snemma morguns til kl. 13.00. Áður en keppendur héldu heim á leið fengu allir afhent verðlaun, mótsgjöf, liðsmynd og bikar fyrir þátttökuna ásamt því að gæða sér á grilluðum pylsum og meðlæti.

Veðrið lék við keppendur og fylgdarfólk báða dagana og var mikil ánægja og gleði sem skein úr andlitum allra meðan á mótinu stóð og fóru allir heim með góðar minningar frá Pæjumótinu.
Mótshaldarar vilja koma fram þakklæti til allra sem sóttu mótið sem og styrktaraðila og sjálfboðaliða. Við eigum vonandi eftir að sjá sem flesta á Pæjumóti SPS og Rauðku að ári.

Hér koma svo nokkrar svipmyndir frá mótinu.

Forsíðumynd: Mikael Sigurðsson.
Aðrar myndir og texti: Aðsent.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is