Frábær dagur


Hrafn Jökulsson skákfrömuður var á ferð hér í bæ í morgun og tefldi fjöltefli við börn í yngri deildum Grunnskóla Fjallabyggðar. Áður en baráttan hófst sagði hann frá starfi Skákfélagsins Hróksins á Grænlandi í gegnum tíðina og uppskar margar spurningar í kjölfarið frá áhugasömum áheyrendunum.

Svo voru teknar nokkrar köflóttar.

Héðan fór hann yfir til Dalvíkur og í Þelamerkurskóla og mun svo halda för sinni áfram á morgun.

„Þrjár frábærlega skemmtilegar skólaheimsóknir að baki í dag: Sigló, Dalvík og Hörgársveit,“ ritaði hann í tölvubréfi til undirritaðs nú undir kvöld. „Allsstaðar leiftrandi skemmtilegt. Telst svo til að um 150 krakkar hafi tekið þátt í skákfjörinu og Grænlandsspjalli. Á næstu dögum heimsæki ég fleiri sveitarfélög við Eyjafjörð, svo fjörið heldur áfram.

Hrókurinn fagnaði í haust 20 ára afmæli og af því tilefni ákváðum við að heimsækja öll sveitarfélög landsins með fjöltefli og Grænlandskynningu í máli og myndum. Þetta er viðamikið verkefni, en að sama skapi gefandi og skemmtilegt grasrótarstarf. Skák er ekki bara skemmtileg, hún er líka frábært verkfæri sem brýtur niður alla múra, því allir geta teflt og öll börn hafa gaman af skák, ef hún er kynnt á réttan hátt. Og svo sýna rannsóknir að skákkunnátta bætir námsárangur, enda höfum við Hróksmenn lengi talað fyrir því að skák verði kennslugrein í grunnskólum.

Ég er afar þakklátur fyrir góðar móttökur starfsfólks og nemenda, og vona að þau haldi áfram af fullum krafti í skákinni. Hrókurinn er líka þakklátur þeim sem gera okkur kleift að bjóða skólunum upp á þessar heimsóknir. TOYOTA leggur til bíl, N1 eldsneyti, Hótel Sigló og Hótel KEA buðu upp á gistingu.

Það er ekki síður mikilvægt að uppfræða börn (og fullorðna) um okkar næstu nágranna. Grænlendingar líta á Íslendinga sem bestu vini sína, og við eigum að rækta tengslin á sem flestum sviðum,“ sagði Hrafn að endingu, alsæll með daginn.

Og börn og starfsfólk skólanna ekki síður.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is