Frá hnjám og niður

Fríða Björk Gylfadóttir, Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2015, er ekki þekkt fyrir að sitja auðum höndum. Fjölmörg dæmin sanna það. Skemmst er að minnast Héðinsfjarðartrefilsins. Nú er hún með annað verkefni á prjónunum, eða þannig. Á Facebook-síðu súkkulaðikaffihúss síns ritaði hún á dögunum:

„Á næsta ári verður verkefnið um Héðinsfjarðartrefillinn 10 ára. Þetta var stórt verkefni sem tókst svona óskaplega vel af því að svo margir hjálpuðust að. Með sömu hugsun að baki langar mig að sýna svolítið bókstaflega undirstöður bæjarfélagsins Fjallabyggðar og gera verk þar sem ég tek myndir af öllum bæjarbúum frá hnjám og niður. Mig langar óskaplega til að þetta sé tilbúið 2. október næstkomandi því þá eru slétt 10 ár síðan trefillinn var lagður í gegnum göngin og býð því öllum bæjarbúum að koma við á kaffihúsinu, segja okkur nafn og heimilisfang, láta taka af sér mynd og þiggja einn mola og uppáhellt kaffi. Opið er fimmtudaga til sunnudags frá kl 1 til 6 og vona ég að ég fái sem flesta með í verkefnið. Þetta á að geta sýnt enn og aftur hvað hægt er að gera magnaða hluti þegar allir hjálpast að.“

Nú er bara að líta í heimsókn í Túngötu 40a.

Mynd (úr safni) og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]