Forstjóri nýrrar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands skipaður


„Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað Jón Helga Björnsson forstjóra nýrrar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sem tekur til starfa 1. október. Skipunin byggist á mati lögbundinnar nefndar sem mat hæfni umsækjenda. Jón Helgi hefur gegnt embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga frá árinu 2007.” Þetta segir á heimasíðu Velferðarráðuneytisins.

Og ennfremur:

„Forstjórar heilbrigðisstofnana eru skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu skal þriggja manna nefnd meta hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. Hæfnisnefndin mat Jón Helga hæfastan þeirra átta sem sóttu um embættið. Í umsögn hæfnisnefndar er m.a. bent á að Jón Helgi hafi víðtæka reynslu sem stjórnandi í atvinnurekstri og hafi leitt umfangsmiklar skipulagsbreytingar á þeim vettvangi. Í núverandi starfi hafi hann mætt kröfum um hagræðingu og endurskipulag með góðum árangri. Þá kemur fram að hæfnisnefndin hafði áður metið Jón Helga vel hæfan til starfa sem forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.

Nýja stofnunin verður til við sameiningu heilbrigðisstofnananna á Blönduósi, Sauðárkróki, Fjallabyggð, heilsugæslustöðvarnar á Dalvík og Akureyri og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.”

Umsækjendur voru átta talsins:

• Anna Sigurbjörg Gilsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar.
• Bjarni Kr. Grímsson, verkefnastjóri.
• Guðlaug Gísladóttir, viðskiptastjóri.
• Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri.
• Herdís Gunnarsdóttir, verkefnastjóri.
• Jóhann F. Friðriksson, framkvæmdastjóri.
• Jón Helgi Björnsson, forstjóri.
• Jónas Vigfússon, fyrrverandi sveitarstjóri.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is