Flygildi yfir Hafnarfjalli


Gestur Hansson, snjóaeftirlitsmaður Veðurstofu Íslands, tók þátt í áhugaverðu verkefni á dögunum, sem fólst í að flytja menn og tæknibúnað frá EFLU verkfræðistofu upp í Skarðsdal, þaðan sem vel tækjum búnu flygildi var skotið á loft í átt að Hafnarfjalli í því skyni að taka myndir af snjóalögunum þar í efra, til að komast að því hvernig hleðst í fjallið.

„Þetta byrjaði með því að Tómas Jóhannesson á Veðurstofunni hafði samband við mig, sá sem hefur séð um þessi upptakastoðvirki í Hafnarfjalli, og bað mig um að aðstoða við þetta, því þeir sem um flugvélina sáu þurftu að vera í ákveðinni hæð til að geta flogið henni til mælinga, en þessi græja er búin öflugri myndavél,“ sagði Gestur, aðspurður um hvernig þetta hefði borið til. „Hún flýgur fyrirfram ákveðið ferli sem búið er að forrita, tekur fyrst á loft af skotpalli, er slöngvað upp í loftið og þegar hún er búin að ná 30 km hraða fer hreyfillinn í gang og hún flýgur upp í þá hæð sem henni er ætlað að vera í, 800 metrum í þessu tilviki, meðan hún er að störfum. Hún flaug svo austur-vestur við Hafnarfjallið og var 20 mínútur í fluginu, tók þá stefnuna til baka, bað um lendingarleyfi og fékk – annars hefði hún sólað þar yfir –  og lenti því næst í snjónum. Enginn hjólabúnaður er á henni. Grind hennar er úr koltrefjum til að þola ákveðið hnjask. Hún drepur á hreyflinum þegar hún á eftir 2 metra í jörðu, tekur þá af rafmagnið og fellur niður. Við fórum uppeftir á tveimur vélsleðum.“

Sjá hér og hér.

Gestur fór svo út á Hafnarhyrnuna, undir vindkljúfana, og setti þar niður eitt merki og annað á brúninni rétt sunnan við Fífladalagilið, og svo eru tvö merki í bænum, og við þau öll er svo miðað þegar farið er að reikna út það sem vélin tók myndir af.

Og hann bætir við, þungt hugsi: „Meðan við vorum í Skarðdalnum fóru alla vega fjórir stórir flekar af stað, norðan við Grísalækjargilið, þetta er með því stærra sem maður hefur séð í þessari hrinu núna, sem byrjaði 7. maí. Helsti munurinn á því sem kom niður núna og hér fyrir nokkru síðan er að við erum núna að fá niður flóð á skíðasvæðið og síðan inn öll fjöllin hérna ofan við bæinn og inn og út alla dali, en við fengum þá bara flóð yfir Ríplunum. Þetta er mjög sérstakt. Og hér eru menn að skíða um allt. Það eru alls staðar skíðaför. Ég held að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær einhver þessara einstaklinga lendir í flóði.

Ég hitti tíu manna erlendan hóp uppi í Skarði á leið upp á Illviðrishnjúk, þar voru allir að fara að skíða, og ég benti þeim á snjóflóðin og sagði þau vera alveg nýfallin, en það virtist engu skipta, fólkið hélt ótrautt áfram. Þessir útlendu hópar eru yfirleitt bara með erlenda leiðsögumenn, sennilega  til að spara sér aurinn. Þetta er ekki á alveg nógu góðu róli, finnst mér. Það varð t.d. alvarlegt slys hér fyrir skemmstu, en það rataði ekki í fjölmiðla, einhverra hluta vegna.

Ég fór líka inn í Hólsdal í vor og mætti þar tíu manna hópi ofan í gili inni í botni; fólkið veifaði mér þegar ég nálgaðist á snjósleðanum, og einn gekk til mín og spurði þegar ég var að koma að gilinu: „Do you know where I am?“ Ég sagði honum það og spurði hvort þau væru með eitthvert plan eða hvort einhver vissi af þeim eða hvort þau hefðu hlustað á veðurspá, en nei, það var ekki.

Þetta hefur sloppið hingað til að mestu, en ég er hræddur um að þetta endi með ósköpum ef ekki verður gripið í taumana.“

Myndir: Gestur Hansson.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]