Flöskuskeyti og vænsti þorskur


Í gamla daga var fátt skemmtilegra en að ganga fjöruna á vorin, því ýmislegt hafði borist upp um veturinn sem mátti nýta eða verða til fræðslu. Sumum drengjum af hinni ungu kynslóð nútímans finnst þetta jafn heillandi og þeir vilja helst hvergi annars staðar vera í frítímanum en á slíku rölti eða þá með veiðistöng í hönd á bryggjunum.

Þetta borgaði sig á dögunum, þegar einn, Mikael Sigurðsson, 13 ára, rakst á flöskuskeyti á ruslasvæðinu austan við olíutankana, skammt frá Öldubrjótnum. Þungt vetrarbrimið hafði bersýnilega kastað flöskunni yfir grjótgarðinn. Ekki er þó ljóst hvenær. Í henni voru þrjú bréf, dagsett 26. mars 2005.

Tíðindamaður Siglfirðings.is hafði samband við Magdalenu Björnsdóttur, aðra af tveimur höfundum bréfanna, fyrr í kvöld. Henni fannst þetta mikil tíðindi, að þetta skyldi finnast svona löngu síðar, og hafði gaman af og gaf leyfi sitt fyrir birtingu. Flöskunni hafði verið fleygt í hafið við bensínstöðina á Siglufirði, að hana minnti. Sennilega hefur flaskan velkst um fjörðinn í einhvern tíma, kannski árum saman, en aldrei komist alla leið út.

Mikael og vinir hans þrír – Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus Þorvaldsson og Tryggvi Þorvaldsson – höfðu áður en skeytið fannst verið að kanna veiðihorfur á þessu svæði, við Öldubrjót og Óskarsbryggju, og í ljós kom að mikið líf var í höfninni, eins og ljósmyndin hér fyrir ofan sýnir. Þorskurinn sá var 72 cm á lengd og 3-4 kg slægður. Hann var þá nýlega búinn að éta heilan trjónukrabba, ekki lítinn.

Einnig voru silungar þar á sveimi, en létu ekki glepjast af agni piltanna.

Forsíðumynd: Tryggvi Þorvaldsson.
Texti og ljósmynd af Mikael og flöskuskeytinu: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Fylgjur: Bréfin sem voru í flöskunni.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is