Flórgoði

Flórgoðinn tilheyrir ættbálki goða, PODICIPEDIFORMES, og þaðan ætt goða, Podicipedidae. Í henni eru alls 20 fuglategundir í sex ættkvíslum, útbreiddar um allan heim nema á Suðurskautslandinu.
Einkenni goðaættarinnar eru þau helst að fiðrið er einkennilega gljáandi, að stél er nánast ekkert, að talsvert er um fjaðraskraut á höfðinu, einkum um varptímann, að á flestum goðum er nefið þunnt og oddhvasst og að síðustu það að fætur eru mjög undarlegir, þ.e.a.s. hliðflatir, og tærnar með breiðar og flatar klær og aðskildar sundblöðkur á hverri tá. Af Podicepsættkvísl eru, auk flórgoðans, sjö aðrar tegundir. Hann er eini fulltrúi ættarinnar sem verpir hér reglubundið en þrjár tegundir aðrar – sefgoði, stúfgoði og toppgoði – flækjast hingað af og til.
Flórgoðinn er 31-38 cm að lengd, tæp 400 g að þyngd að meðaltali (kvenfuglar 350-376 g; karlfuglar 320-470 g) og með 59-65 cm vænghaf. Til eru heimildir um íslenska kvenfugla sem vógu 600 g og 720 g en annaðhvort mun slíkt heyra til undantekninga eða vera hreinlega rangt, að dómi fróðra manna.
Í varpbúningi er flórgoðinn dökkur á kolli og rauðbrúnn frá nefrót að augum en þaðan liggja svo rauðgulir taumar aftur að ofanverðum, fiðurmiklum hnakka eða svokölluðum eyrnaskúfum. Frá neðanverðum hnakka er fuglinn dökkur niður að grönnum hálsi en þar tekur aftur við rauðbrúnn litur. Bakið er dökkt, síður rauðbrúnar en kviður hvítur. Nefið er svart að mestu, gulleitt eða hvítt þó í oddinn. Stélið mjög stutt. Lithimna augna skærrauð, augnhringir hvítir. Fætur blásvartir eða gráir.
Í vetrarbúningi missir flórgoðinn eyrnaskúfana tvo og litauðugt fiðrið. Kollurinn verður þá áberandi dökkur en vangar, hnakki, kverk, framanverður háls, bringa, úfnar hliðar og kviðurinn eru með gljáhvítum lit. En bakið, aftanverður háls og neðanverðar síður eru með dökkbrúnum lit. Nefið gulbrúnt. Á flugi sjást áberandi hvítir vængspeglar. Kynjamunur er vart sýnilegur.
Flórgoðinn hefur norðlægustu útbreiðslu allra goða. Hún nær frá Skandinavíu og þaðan um Eystrasaltslöndin, norðurhluta Rússlands, austur um alla Síberíu, Kamtsjatkaskaga, Alaska, Kanada og nyrstu fylki Bandaríkjanna. Sumsstaðar er hann þó fágætur varpfugl, eins og t.d. í Skotlandi þar sem hann byrjaði að verpa fyrst árið 1908; talið er að þar hafi verið um að ræða íslenska eða skandinavíska fugla.
Um tvær deilitegundir er að ræða að sumra mati; aðrir greina ekki á milli. Evrasíufuglarnir (og þ.m.t. sá íslenski) eru allir taldir vera af nafntegundinni, P. a. auritus, en þeir fuglar eru m.a. dálítið stærri en aðrir og hafa sterkbyggðara nef og töluvert styttra. P. a. cornutus er hinsvegar að finna í Norður-Ameríku, frá Mið- og Suður-Alaska og Kanada suður að Idaho, norðurhluta Suður-Dakóta og Mið-Minnesóta.
Íslenski flórgoðinn er trúlega að mestu leyti farfugl. Snemma í apríl koma fyrstu einstaklingarnir inn á varpstöðvarnar og eru þá í sínu besta pússi og tilhugalífið í hámarki. Farið er að byggja hreiður jafnóðum og ísa tekur að leysa. Eiginlegur varptími hér á landi er þó ekki fyrr en í lok maí eða byrjun júní. Oft geta verið nokkur pör á sama vatni, jafnvel mörg. Hreiður flórgoðans er allsérkennilegt og reyndar einsdæmi í íslenska fuglaríkinu. Um er að ræða stóra, fljótandi dyngju úr rotnandi jurtum. Henni er venjulegast komið fyrir þar sem vatnagróðurinn er hvað þéttastur, á grynningum við bakka. Eggin eru líka óvenjuleg. Þau eru oftast 4-5 en geta þó verið 1-7 að tölu. Þau eru bláhvít að lit, þakin mjúku, gegnsæju og óreglulegu kalklagi yst en verða fljótlega ljósgul og síðan brún vegna efnisins í hreiðrinu sem og járnútfellinga. Útungun tekur um 22-25 daga og sjá bæði kyn um áleguna. Meðan ungarnir eru litlir synda foreldrin venjulegast með þá á bakinu. Þeir eru taldir verða sjálfstæðir á 45 dögum eða svo, fleygir 55-60 daga og kynþroska að tveimur árum liðnum.
Á Íslandi er dreifing flórgoðans slitrótt, misjafnt þó eftir landshlutum. Sáralítið er t.d. af honum við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Austfjörðum; langmestur fjöldinn er á Mývatni og í nágrenni þess, eða um helmingur íslenska stofnsins, en einnig nokkuð á öðrum stöðum í Þingeyjarsýslum, í Skagafirði og á Meðallandi. Annarsstaðar um Norðurland, Suðurland og Borgarfjörð er hann á strjálingi.
Á sumrin kann flórgoðinn best við sig á gróðursælum vötnum og tjörnum á láglendi, með auðugu dýralífi í. Þar er fæðan mikið til hornsíli en einnig þó vatnaskordýr, s.s. brunnklukkur, tjarnatítur, vorflugulirfur, mýlirfur og krabbadýr. Á veturna kýs hann að dvelja með ströndum fram og tekur þar aðallega smáfiska og krabbadýr, s.s. agnir, marflær og rækjur. Auk fæðunnar neyta goðar mikils af eigin fiðri; er það talið hjálpa við meltinguna þótt ekki skilji menn hvers vegna goðum er þetta nauðsynlegra en öðrum fuglum.
Þótt flórgoðarnir taki að yfirgefa varpstöðvarnar í ágúst, sjást alltaf einhverjir áfram á vötnum fram eftir hausti og allt fram í nóvember.
Ekki er með öllu ljóst hvað verður um flórgoðann á veturna. Lengi var talið að hann færi burt og þá helst til Vestur-Evrópu. Einn flórgoði, merktur á Íslandi, hefur t.d. endurheimst í Færeyjum, annar við Írland og hinn þriðji á Biskayaflóa við Frakkland. En nú hallast menn að því að einhver hluti stofnsins a.m.k. sé hér allt árið því alltaf sjást nokkrir fuglar yfir kaldasta tímann innfjarða við Suðvesturland, þ.e.a.s. í Hvalfirði, Ósum og einnig á Skerjafirði. Á þessum árstíma er erfitt að koma auga á þá, m.a. vegna þess hve litlausir þeir eru, og því allt eins líklegt að þeir kunni að leynast víðar með ströndum landsins.
Hvað snertir rödd flórgoðans, þá er hún á varptíma – einkum að nóttu til – margbreytileg, skörp, dillandi hljóð en á öðrum tímum ársins er um að ræða langdregið væl.
Íslenski flórgoðastofninn er talinn vera lítill. Sumir nefna töluna 250 pör, aðrir 300-500 pör. Ýmislegt bendir þó til að hann fari stækkandi.
Önnur heiti þessarar tegundar eru mörg og sum gömul. Þar á meðal eru brimorri, eyrönd, flóaskítur, flóðaseta, flóðaskýtur, flóðgoði, flóðflýta, flóðflýtur, flóðfugl, flóðfyl, flóðgoði, flóðseta, flóðseti, flóðskítur, flóðskýtur, flóðsmyrill, flór, flóra, flórgoð, flóri, flórseti, flórskítur, flórönd, langvíuönd, sefönd og tjarnasefönd.

Flórgoðahreiður.

Flórgoðahreiður.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]