Flórgoði verpir í Siglufirði

lighthousemorning

Eins og flestum náttúruunnendum ætti að vera kunnugt er fuglalíf mikið í Siglufirði, töluvert meira en á árum áður, hvað sem veldur. Nú í sumar bættist á tegundalistann, sem þó var langur fyrir (sjá t.d. hér en upplýsingarnar þar eru að vísu komnar nokkuð til ára sinna), því flórgoði heimsótti okkur og verpti, og ekki bara eitt par heldur tvö. Í öðru hreiðrinu voru 7 egg en í hinu 4.

 

Flórgoði á syðra hreiðrinu. Myndin var tekin 7. júní síðastliðinn.

Þessi uppgötvun fór leynt, því íslenski stofninn hefur verið talinn afar
lítill og fuglinn því mjög sjaldgæfur.

Syðra hreiðrið.

Syðra hreiðrið, það fyrsta sem vitað er um í Siglufirði.

Myndin var tekin 5. júlí síðastliðinn.


Sama hreiður frá öðru sjónarhorni. Myndin var tekin 5.
júlí síðastliðinn.


En fljótt skipast veður í lofti. Í gær kom þvílíkt úrfelli að Saurbæjarmýrin fór á kaf og með henni allt sem þar var og komst ekki undan, þ.e.a.s. egg og vafalaust ungar einhverra votlendisfuglategunda, s.s. óðinshana. Í Morgunblaðinu í dag kveðst Trausti Jónsson veðurfræðingur ekki muna eftir dýpri lægð á þessum árstíma.

Svona leit mýrin út í dag.

Þegar fréttamaður leit yfir svæðið upp úr hádegi í dag voru flórgoðarnir enn þar á sundi, en bersýnilega ráðvilltir.

Sannarlega dapurlegur endir á þessu óvænta og spennandi ævintýri.

Sjá nánar undir Fróðleikur (Flórgoði).

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is