Fljúga skrautleg fiðrildin


Þegar sá lærði maður Sveinbjörn Egilsson orti á 19. öld um hvítu fiðrildin á sveimi við gluggann, hafa þar ugglaust blasað við augum hans íslenskar tegundir, því flestar eru þær tiltölulega einsleitar og ljósar að sjá úr fjarska. Nú á tímum er álitið að innlendar fiðrildategundir séu tæplega 60. Þær eru gjarnan flokkaðar í villtartegundir eða utanhússtegundir, sem eru 51 að tölu, og innanhússtegundir, sem eru 7 talsins. Utanhússfiðrildin eru plöntuætur, en innanhússfiðrildin lifa ýmist á mjölvöru og kornmat, eða á ull og fiðri. Á Íslandi hafa þó alls sést um 120 tegundir fiðrilda, þannig að innlendu tegundirnar eru ekki nema um 48% þeirrar tölu. Þær tegundir sem við bætast eru flökkufiðrildi, 30 tegundir, og innfluttar tegundir, alls 32. Hinar fyrr nefndu eiga það sameiginlegt að fljúga til landsins á eigin vængjum, þegar byr gefur, en þær síðar nefndu berast hingað með öðrum hætti, t.d. innfluttri vöru (grænmeti, plöntum o.s.frv.), ýmist sem egg, lirfur eða fleyg dýr. Í þessum flokki innfluttra tegunda eru ýmis litfögur fiðrildi, og má þar kannski helst nefna páfiðrildi og netlufiðrildi, sem koma hingað alloft. Aðrar tegundir eru mun fátíðari.

Hér er ætlunin að gera flökkufiðrildunum skil, en láta innfluttu tegundirnar liggja milli hluta. Áður en lengra er haldið, er þó rétt að fræðast örlítið um þennan ættbálk skordýra.

Hreisturvængjur

Fiðrildi komu fram á sjónarsviðið fyrir meira en 150 milljónum ára. Þau tilheyra fjölskrúðugum ættbálki sem á latínu heitir Lepidoptera og útleggst á íslensku hreisturvængjur. Nafngiftin á rætur í því, að fiðrildin eru með tvö vængjapör, sem eru þakin hreistri með litkornum í og sem oft mynda skrautlegt mynstur. Vænghafið getur verið á bilinu 0,3-30,5 cm. Munnlimirnir eru oftast ummyndaðir í langan sograna. Á sumum fiðrildum eru raspar á sogrananum, til að stinga gat á aldinhýði. Lyktarskynið er háþróað.

Ættbálknum er gjarnan skipt í tvær megindeildir, lágvængjur og hávængjur. Sú flokkun er þó ekki byggð áskyldleikatengslum, heldur útliti. Hávængjur eru með breiða vængi, sem þær leggja saman upp frá bolnum í hvíldarstellingu, og eru ljóselskar. Lágvængjur eru með vængina flata yfir bolnum í hvíldarstöðu og eru flestar náttförular og því litdaufar. Annað sem greinir á milli þessara deilda er, að á hávængjum eru fálmararnir kylfulaga en á lágvængjum ekki. Þess má geta, að allar íslensku fiðrildategundirnar eru af flokki lágvængja.
Einnig hafa lágvængjur verið kallaðar náttfiðrildi og hávængjur dagfiðrildi, og þá litið til þess, hvenær dýrin eru helst á ferli. Sú aðgreining er ekki tæmandi, því sum “náttfiðrildi” eru á ferli á daginn og svo öfugt. Aðallega eru þessar skiptingar til hægðarauka. Hávængjurnar komu til sögunnar nokkru á eftir lágvængjunum, eða fyrir 70-100 milljónum ára.
Alls eru þekktar í heiminum um 150 þúsund tegundir fiðrilda. Eru menn þó sammála um að í raun séu tegundirnar drjúgum fleiri, þótt ekki hafi þær enn komist í hendur vísindanna. Hávængjurnar eru í minnihluta, ekki nema um 5% af heildinni. Hins vegar eru þær meira áberandi í umhverfinu, enda mun skrautlegri í útliti og yfirleitt á ferli á daginn.
Lirfurnar eru flestar plöntuætur og naga laufblöð, rætur, fræ eða við og hafa fullkominn bitmunn. Sumar tegundanna eru því skaðvaldar á gróðri og plöntuafurðum. Einnig finnast tegundir sem leggjast á ull og skinn, eins og nefnt var hér áður um sum íslensku innanhússfiðrildin. Fullorðin lifa dýrin aðallega á blómasafa, ofþroskuðum ávöxtum eða á hunangsdögg blaðlúsa.
Sumar tegundir í heitum löndum eru allt að 7 árum að komast á fiðrildastigið, og nokkrar heimskautategundir eru 14 ár á lirfustigi, til þess eins að lifa eitt sumar fullorðnar.
Stærst allra hávængja mun vera Alexöndrufiðrildið (Ornithoptera alexandae) í Nýju-Gíneu, með 27,9 cm vænghaf, en tvær lágvængjutegundir slást um heiðurinn af að vera stærstar allra núlifandi fiðrilda; önnur nefnist Atlasbegða (Attacus atlas), sem á heimkynni í Suður-Asíu, og hin Agrippínuygla (Thysania agrippina), sem á heimkynni í Suður-Ameríku. Í báðum tilvikum er vænghafið um 30 cm.

Flökkufiðrildi

En þá er að líta á hin útlendu fiðrildi, sem koma á þöndum vængjum yfir hafið til Íslands og hafa verið nefnd flökkufiðrildi.

„Það eru allnokkrar tegundir sem hafa í sér flökkueðli,” segir Erling Ólafsson skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun, þegar hann er spurður um ástæður þess, að útlend fiðrildi leggi upp í slíka för hingað. „Uppeldisstöðvar þeirra eru í Suður-Evrópu, í kringum Miðjarðarhaf. Stundum verður fjöldinn þar ansi mikill og þá fara þau að rása og tvístrast í allar áttir og tilviljun ein ræður hvar þau lenda. Að baki þessu er þörfin fyrir dreifingu. Stærstur hluti þessa aragrúa lendir auðvitað á stöðum, þar sem fiðrildin eiga sér enga lífsvon, en önnur lifa af. Þetta er einfaldlega aðferð þeirra til að ná á þá staði, þar sem möguleikarnir eru. Það er ekki verið að hugsa um einstaklingana, heldur er það tegundin sem gildir.
Til að fiðrildin komist hingað þarf að gefa hlýja suðaustanátt, ekki of hvassa, og best er ef smáraki er í loftinu. Þau fljúga af sjálfsdáðum, þ.e.a.s. halda sig á flugi, en vindurinn ræður stefnu og hraða. Þetta er því ótrúlegt afrek út af fyrir sig, að komast hingað.
Sum fiðrildi eru þó eiginleg farfiðrildi, taka sig upp frá sumarheimkynnum og fljúga á vetrarstöðvar í suðlægari löndum til að liggja þar í dvala; svo til baka á vorin sömu leið. Ein þessara tegunda er kóngafiðrildi (Danaus plexippus), sem á m.a. heimkynni í Ameríku. Það flýgur á hverju sumri frá heimkynnum sínum í Norður-Ameríku til vetrarstöðva í Mexíkó. Á fartímum hefur það stundum slæðst í umtalsverðum fjölda austur yfir Atlantshaf til Evrópu, einkum til Bretlandseyja, oft í fylgd með amerískum flækings- eða hrakningsfuglum. Það hefur einu sinni fundist hér á landi; var á flögri í Reykjavík 15. september 1955.”

 

Eru að koma alveg fram í nóvember

Hvenær á árinu gerist þetta?

„Oftast síðsumars. Eftir miðjan ágúst og þó einkum í september og getur verið alveg fram í nóvember. Svo kemur það líka fyrir stundum, að göngur koma á vorin og í þeim tilvikum verpa fiðrildin gjarnan og lirfurnar ná að vaxa upp og ný kynslóð skríður úr púpum á haustin. En þessi nýja kynslóð á þó enga lífsmöguleika hér yfir veturinn. Það eru 6 tegundir, að því er við best vitum, sem hafa náð að fjölga sér hér með þessum hætti: dílaygla (Peridroma saucia), gammaygla (Autographa gamma), garðygla (Agrotis ipsilon), kálmölur (Plutella xylostella), skrautygla (Phlogophora meticulosa) og þistilfiðrildi (Vanessa cardui). Þeirra verður ekki eins mikið vart á þeim tíma og á haustin, vegna þess að þá er farið að birta, svo að þau koma ekki í ljósgildrur. Auk þess eru þau á ferð á nóttunni, öll nema þistilfiðrildi, svo að það er undantekning ef við sjáum þau.”

Ljósgildrurnar sem Erling minnist á komu hingað til lands árið 1995 vegna samnorræns rannsóknaverkefnis, sem hófst tveim árum áður í Finnlandi og er ráðgert að standi til ársins 2003. Löndin sem taka þátt eru Ísland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland, og að auki Eistland, Lettland, Litháen og Rússland. Gildrurnar sem eru notaðar hér á landi eru af svonefndri Ryrholm-gerð og voru hannaðar í Svíþjóð. Þeim er ætlað að standa á jörðu niðri og eru sterkbyggðar og því öruggar í flestum veðrum. Þær eru settar niður við fyrsta tækifæri á vorin og haldið gangandi fram eftir hausti. Á þessu tímabili eru þær tæmdar vikulega. Áður en að þessu sameiginlega rannsóknaverkefni kom, höfðu ljógildrur ekki verið notaðar á Íslandi. Mun koma þeirra til landsins hafa valdið byltingu í rannsóknum á fiðrildum hér.
„Annars geta flökkufiðrildin lifað töluvert lengi ef tíðin er góð,” segir Erling. „Það er algengast að fiðrildin lendi á Suðausturlandi og dreifi sér þaðan vestur eftir Suðurlandi. Í tvö skipti var hægt að mæla þetta, vegna ljósgildranna. Þær gefa möguleika á að fylgjast náið með þessu. Þetta var t.d. reyndin núna í haust, þegar asparyglurnar (Agrochola circellaris) komu. Fyrst sáust þær á Suðausturlandi í miklum fjölda, og hálfum mánuði síðar voru þær í Fljótshlíðinni. Engin ástæða var til að ætla, að það hefði komið eitthvað meira til landisns, heldur benti þetta til hreyfingar fiðrildanna vestur eftir. Það tók þau sem sagt tvær vikur að mjakast þetta. Fiðrildin eru yfirleitt mjög falleg við komuna til landsins, en hreistrið slitnar af þeim á leiðinni vestur um, svo að þau eru orðin mun óásjálegri þegar hingað er komið.”

Oft í milljónatali

Eitt mesta fiðrildaský sem menn hafa orðið vitni að, er sagt að hafi verið 402 km breitt og talið ófáar milljónir dýra. Ekki fylgir sögunni hvar þetta var eða um hvaða tegund(ir) var að ræða. Hins vegar mun ein slík ganga þistilfiðrilda yfir ótilgreindan stað í Kaliforníu hafa tekið þrjá daga og fjöldi dýra var áætlaður þrjár milljónir. En þistilfiðrildi er útbreitt um mestallan heiminn, þó ekki í Suður-Ameríku. Í Evrópu eru raunveruleg heimkynni tegundarinnar í álfunni sunnanverðri, og þaðan flakkar hún árlega norður á bóginn. Hún flýgur oft hingað til lands og stundum í umtalsverðum fjölda.

„Stundum er hægt að rekja fiðrildagöngur frá einu landi til annars,” heldur Erling áfram. “Þær koma til Hjaltlandseyja frá meginlandi Evrópu, og svo yfir Færeyjar og alla leið til Íslands. Það kom t.d. heilmikil gusa bæði hér og í Færeyjum um mánaðamótin september/október. Og það er hægt að tímasetja hvenær þetta kemur á hvern stað; það er á að giska sólarhringur á milli. Oft er fiðrildafjöldinn sem leggur af stað alveg gríðarlegur, en mikil afföll verða á leiðinni. Fyrir nokkrum árum kom t.d. ein slík gusa yfir Færeyjar, og lýstu sjómenn því að hafsvæðið við eyjarnar hefði verið þakið af deyjandi fiðrildum; að þeir hefðu siglt í gegnum endalausar breiður sem flutu á sjónum. Það var aðallega gammaygla.”
Umrædd fiðrildategund berst árlega til Íslands, oft í umtalsverðum fjölda, og á það jafnvel til að fjölga sér ef hún kemur nógu snemma og aðstæður leyfa eins og áður var nefnt. Gammayglur hafa fundist víða um land, en langflestar þó um sunnanvert landið.
Við þetta má bæta, að um mánaðamótin júní/júlí á þessu ári kom hingað til lands ein mesta ganga aðmírálsfiðrilda (Vanessa atalanta) sem menn hafa orðið vitni að.

Fáar tegundir landlægar

Hvað gerir það að verkum, að svo fáar tegundir eru landlægar hér?

„Það er ekki síst einangrun landsins,” segir Erling. „Hún gerir það að verkum að hér eru færri plöntutegundir en víða annars staðar, en fiðrilda- og plöntutegundir haldast í hendur, því fiðrildin eru plöntuætur. Margar tegundir fiðrilda eru sérhæfðar á plöntutegundir og eiga því enga lífsmöguleika hér, þegar umræddar fæðuplöntur vantar. Það er m.ö.o. beint samband þar á milli. Einnig hefur loftslagið áhrif, en ekki eins mikið og einangrunin. Það gætu mun fleiri tegundir komist af hér loftslagsins vegna, ef fjölbreytni væri meiri í plöntuvali. Svo eru líka margar tegundir, sem gætu lifað hér á landi ef þær á annað borð kæmust hingað. Það gildir ekki bara um fiðrildi, heldur skordýr almennt. Í þeim tilfellum eru hentugar plöntur til staðar en hafið er farartálminn.”

Þess má að lokum geta til samanburðar, að í Kanada hafa sést um 4500 tegundir, í Frakklandi og Belgíu um 4700, í Skandinavíu 2000-3000 og á Bretlandseyjum um 2500.
[Birtist upphaflega í Morgunblaðinu, B-blaði, 5. nóvember árið 2000, á bls. 16-17. Myndir eru hér nokkru færri og ekki þær sömu.]
Myndir: Fengnar af Netinu.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is