„Flestir á mínum aldri steindauðir”


Þau eru teljandi á fingrum annarrar handar sem eru jafn dugleg í útivistinni og Ragnar Helgason, sem flest okkar þekkja undir nafninu Raggi á Kambi. Það er sama hvernig viðrar, alltaf er hann á ferðinni, ef ekki á hjólinu þá fótgangandi. Inni í firði eða úti við göng, eða einhvers staðar þar á milli.

Það er aðdáunarvert.

Þegar undirritaður var staddur á gömlu flugbrautinni laugardaginn 18. júlí, birtist Ragnar skyndilega í hvannastóði þar nærri. Litlu síðar upplýstist að hann hafði skroppið út að Selnesvita. Og aðspurður kvaðst hann oft labba þangað og hafa verið uppi í Siglufjarðarskarði daginn áður.
„Æi, lappirnar eru búnar, þótt maður sé að þessu helvíti,” sagði kappinn og andvarpaði.

Hann er fæddur 14. september árið 1926 og er því að verða 84 ára. Og þegar fréttamaður segir hann vera alveg rosalega vel á sig kominn líkamlega sem andlega svarar hann: „Ég læt það nú vera. Maður var nú aðeins líflegri áður. Eða hvað heldur þú, kominn á þennan aldur, það er ekki hægt að búast við miklu.” Svo kemur örlítið hlé. Og síðan bætir hann við: „Annars held ég að flestir á mínum aldri séu steindauðir fyrir löngu síðan.”

En Þorkell, bróðir hans, er reyndar á lífi, orðinn 92 ára. Þeir voru lengi á sjónum, m.a. á Hjalta. Þaulvanir erfiðisvinnu.

Og ekki eiga þeir langt að sækja kraftinn og eljuna og annað, því sr. Bjarni Þorsteinsson réð afa þeirra, Ásgrím Þorsteinsson skipstjóra, „hinn mesta léttleikamann og ágætan skíðamann”, eins og segir orðrétt í bókinni Siglufjarðarprestar, og jafnframt meðhjálpara í kirkjunni á Eyrinni, sem fylgdarmann sinn, meðan hann þjónaði Kvíabekk í Ólafsfirði, auk Hvanneyrarsóknar, sem þá hét.

Þegar Ragnar var beðinn um að sitja fyrir á mynd, leist honum ekkert á það. Og þegar hann er spurður hvers vegna, svarar hann: „Æi, ég er svo ljótur karl orðinn.”

En það er auðvitað mesta vitleysa. Hann er með reffilegri Íslendingum, þeim yngri meðtöldum. Og því er vafningalaust komið til skila.

Og hann samþykkir að lokum, ef hann fær að standa við hjólið góða.

„Maður þarf alltaf að vera með hjálminn, þegar maður er á ferð,” segir hann með þungri áherslu. „Annars er maður ólöglegur.”

Og það er auðvitað bæði satt og rétt.

Sannkallaður öndvegisdrengur, hann Ragnar. Og gerir okkur flestum skömm til með því hvað hann er natinn við að rækta líkamann og sálina úti í hinni óspilltu og frábæru, íslensku náttúru. Vetur, sumar, vor og haust.

Medalíu á garpinn. Frá íþróttahreyfingunni, sveitarfélaginu eða forsetanum.

Strax.

Hann fær alla vega mitt atkvæði.

Ragnar nálgast gömlu flugbrautina eftir að hafa rölt út að Selnesvita.  Hann er að verða 84 ára gamall, en blæs varla úr nös.

Ragnar nálgast gömlu flugbrautina eftir að hafa rölt út að Selnesvita.
Hann er að verða 84 ára gamall, en blæs varla úr nös.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is