Fjórtán álftir í heimsókn


Upp úr hádegi í dag komu 14 álftir í
heimsókn til Siglufjarðar. Voru þær að snudda í Hvanneyrarkróknum um
tíma en fóru svo flestar inn á Leirusvæðið. Þar tóku á móti þeim fuglarnir sem fyrir
löngu eru búnir að helga sér varpóðal kringum tjarnarhólmann og öðrum þeirra lenti saman við
einn úr hópi gestanna og rotaði hann. Þetta fór samt betur en á horfðist,
sá vaknaði aftur. Um klukkutíma síðar náði parið svo að hrekja ?boðflennurnar? út á fjörð. Sennilegast
er þarna á ferðinni hópur sem er að koma að utan og á leið áfram yfir
fjöllin. Hann er núna rétt sunnan við rústir Evanger, í flæðarmálinu.

Steingrímur Kristinsson náði að mynda þetta allt og mun setja í loftið í kvöld eða upp úr miðnætti.

Og talandi um fugla var margæs úti á sjó norðan við gömlu flugbrautina í landi Ráeyrar 15. þessa mánaðar. Það er mjög svo óvenjulegt að rekast á þá tegund hér.
Um hana segir á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands:

Margæs er smávaxin hánorræn gæsategund
(litlu stærri en æðarfugl) sem á varpheimkynni allt umhverfis
norðurheimskautið. Hún er náskyld helsingja Branta leucopsis, sem er
talsvert stærri og allfrábrugðinn í útliti. Þrátt fyrir það rugla sumir
þessum tegundum saman, eins og nýlegt dæmi er um (Mbl. 8. maí 2002, bls.
2).

Margæs er skipt í fjórar
undirtegundir. Ein af þeim B. b. hrota (ljós á kviði) verpur á
Svalbarða, Grænlandi og í Norður-Kanada. Sú undirtegund skiptist í þrjá
meginstofna. Lítill varpstofn á Svalbarða og Norðaustur-Grænlandi (um
5000 fuglar) sem hefur vetursetu við Norðursjóinn, á Jótlandi og við
Lindisfarne á Norðaustur-Englandi, er talinn einangraður stofn. Hinir
tveir eru stærri. Annar þeirra verpur miðsvæðis í N-Kanada og hefur
vetursetu á austurströnd Bandaríkjanna (um 100.000 fuglar), en hinn
verpur í Norðaustur-Kanada en hefur vetursetu í Vestur Evrópu, einkum á
Írlandi. Farleið þess síðastnefnda liggur um vestanvert Ísland vor og
haust. Sá stofn telur aðeins um 20.000 einstaklinga að hausti.

Margæsin er eins og nafnið bendir til
strandfugl, en hún aflar fæðu nær eingöngu í og við fjöru. Fæða hennar
er margskonar sjávar- og strandgróður. Aðalfæðan er marhálmur Zostera
marina
og sjávarfitjungur Puccinella maritima, en einnig grænþörungar
svo sem Ulva sp. Síðari ár hafa margæsir í auknum mæli sótt í ræktuð tún
að vorlagi til beitar. Þessarar breyttu hegðunar hefur orðið vart
hérlendis, sem og á vetrarstöðvum á Írlandi. Beit er þó bundin við tún í
nágrenni hefðbundinna margæsasvæða, enda sækja fuglarnir enn stærstan
hluta fæðunnar til strandar.

Það eru aðeins tæp þrjátíu ár síðan
það varð ljóst að margæsir ferðast milli varpstöðva í Kanada og
vetrarstöðva í Evrópu. Margæsir sem voru litmerktar í Norður-Kanada
sáust á Íslandi haustið 1974. Á árunum 1984-1986 voru hundruð gæsa af
þessum stofni merktar í Kanada með lituðum hringjum sem lesa má af á
löngu færi. Um 70% þeirra sáust aftur á vetrarstöðvum á Írlandi. Um 40
einstaklinga varð vart hérlendis, flestra við Bessastaði, og sáust sumar
þeirra á sömu stöðum mörg ár í röð. Vorin 2001 og 2002 hefur alls 101
margæs verið merktar með litmerkjum á Álftanesi á vegum
Náttúrufræðistofnunar. Af 59 fuglum merktum í maí 2001 varð 48 vart á
sömu slóðum vorið 2002.

Samkvæmt talningum á Írlandi er stærð
Kanada/Evrópu stofns margæsa um 20.000 fuglar að hausti. Talningar benda
til talsverðs vaxtar í stofninum s.l. tvo áratugi (um 12.000 uppúr
1970). Talningar hérlendis að vorlagi benda til þess að allur stofninn
hafi viðdvöl hér á landi, enda er ólíklegt að margæsir gætu komist alla
þessa leið (4.500 km) án þess að byggja upp orkuforða hér á landi.

Fyrstu margæsirnar koma til landsins
fyrri hluta apríl og fjölgar þeim ört uns hámarki er náð um miðjan maí.
Síðustu viku maí mánaðar halda þær svo áfram áleiðis til varpstöðvanna.
Þær eru bundnar við strandsvæði Vesturlands, einkum innanverðan Faxaflóa
og sunnanverðan Breiðafjörð að vorlagi. Á haustin fara þær aftur um
Ísland á tímabilinu frá miðjum september til byrjunar nóvember á leið
sinni til Írlands. Þá halda þær sig einkum við Hjörsey á Mýrum. Frá því
um 1990 hefur orðið vart verulegrar fjölgunar margæsa við sunnanverðan
Faxaflóa bæði vor og haust. Samsvarandi fjölgunar hefur ekki orðið vart á
vetrarstöðvum á Írlandi og stafar því að öllum líkindum af breyttri
dreifingu.

Ýmsir vorfuglar eru nú þegar komnir hingað í Siglufjörð auk álftanna, þ.m.t. hettumáfur, stelkur, tjaldur og rauðhöfðaönd og styttist í fleiri. Undirritaður fór t.d. inn í Skagafjörð í gær, ók reyndar Tröllaskagahringinn og kom um Dalvík og Ólafsfjörð heim aftur. Helsingjar tveir voru á túni nærri Ketilási og heiðlóuhópur dálítið norðan við Sleitustaði.

Þarna er álftahópurinn í Hvanneyrarkróknum upp úr hádegi.

Hér má sjá margæsina sem hingað kom 15. apríl

en hvarf svo á braut.

Á lit kviðarins sést að þetta var Branta bernicla hrota.

Þarna eru helsingjarnir tveir sem voru á túni nærri Ketilási í Fljótum.

Og að lokum nokkrar heiðlóanna, ásamt grágæsum, norðan Sleitustaða.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is