Kirkjuskólaslútt


Barnastarfi Siglufjarðarkirkju lauk í dag. Var þetta 17. samvera vetrarins, en þær hafa varað eina og hálfa klukkustund í senn hver um sig. Lætur nærri að 70-80 manns hafi hvern einasta sunnudag sótt þetta starf að jafnaði undanfarin ár – leikið, sungið, fræðst, unað sér í safnaðarheimilinu við föndur eða eitthvað annað og þegið hádegishressingu, og foreldrar spjallað um lífið og tilveruna með kaffibolla í hönd í afslöppuðu umhverfi. Stundum hefur talan farið yfir hundraðið.

Þráðurinn verður svo tekinn upp að nýju í september en nafninu breytt í Fjölskyldustund, sem þetta jú í raun er, þar sem afar og ömmur og aðrir fjölskyldumeðlimir, sem og Jón og Gunna, verða jafnframt hvött til að líta inn og kynnast því sem er að gerast þarna.

Í Ólafsfjarðarkirkju verður kirkjuskólaslútt á næsta sunnudag, kl. 11.00, með pylsuveislu, og eru Siglfirðingar velkomnir þangað.

Kirkjuskólaslútt í Siglufjarðarkirkju 13. mars 2016.

Þessi mynd var tekin við upphaf síðasta tíma barnastarfsins í morgun. Einhver voru þá enn í safnaðarheiminu að undirbúa komu hópsins upp. Kletturinn sjálfur, Vilborg Rut Viðarsdóttir, var aldrei þessu vant fjarverandi, stödd á Akranesi með ungmennum úr Fjallabyggð á Íslandsmóti unglinga í badminton. Hún er þyngdar sinnar virði í gulli, konan sú.

Mynd: Ingvar Erlingsson.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is