Fjögur prestaköll við utanverðan Eyjafjörð taka upp samstarf


Eins og greint var frá hér 24. september síðastliðinn hafa fjögur
prestaköll við utanverðan Eyjafjörð tekið upp
náið samstarf á hinum kirkjulega vettvangi. Þetta eru Hríseyjarprestakall,
Dalvíkurprestakall, Ólafsfjarðarprestakall og Siglufjarðarprestakall.
Þau halda úti sameiginlegri heimasíðu og munu gefa út sameiginlegt blað
nokkrum sinnum á ári, þar sem verður að finna upplýsingar um helgihald á
svæðinu og margt fleira.

Í ávarpi 1. tölublaðs, sem út kom í lok september og var dreift ókeypis í öll hús á samstarfssvæðinu, sagði sr. Sigríður Munda Jónsdóttir sóknarprestur í Ólafsfirði m.a.:

?Á kirkjuþingi 2010 var samþykkt tillaga um samstarfssvæði, sem hluta af heildarskipan þjónustu kirkjunnar. Svæðin eiga að vera virk um allt land og orðin að veruleika fyrir árslok 2011. Gert er ráð fyrir að prestar svæðisins og forsvarsmenn sóknanna hittist þrisvar sinnum yfir árið og ræði hvernig til hafi tekist og leggi línurnar um framhaldið. Í tillögunni segir að einn prestur svæðisins skulu vera í forsvari þess eitt ár í senn og mun undirrituð vera það þennan vetur 2011-2012. Það er von og trú okkar prestanna að samstarfið megi auka og efla starf kirkjunnar á svæðinu og að þess megi gæta í öllum þáttum kirkjustarfsins, í fermingarfræðslunni, sameiginlegu helgihaldi, kórstarfi, námskeiðum og fyrirlestrum.?

Næsta tölublað er væntanlegt innan skamms.

Til að auðvelda fólki að komast inn á heimasíðuna nýju eða vefinn og fylgjast með því sem er á döfinni, bæði hér og annars staðar, eða hefur gerst, er búið að setja upp hnapp á forsíðu Siglfirðings.is, vinstra megin (Siglufjarðarkirkja).

Hér fyrir neðan er 1. tölublað Safnaðarblaðsins í heild sinni. Og þar undir má sjá forsíðu nýja vefsins sem prestaköllin fjögur standa að.
Mynd (skjáskot) og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is