Fimm stjörnu kvöldskemmtun í Allanum


Þeir voru aldeilis flottir tónleikarnir í Allanum í gærkvöldi. Þeir báru yfirskriftina Ship o hoj og voru með Ragnari Bjarnasyni og félögum.

Hinir frábæru Gómar riðu á vaðið og heilluðu þéttskipaðan salinn gjörsamlega með vönduðum söng, og eftir hálftíma eða svo steig kóngurinn sjálfur á sviðið og viðhélt töfrunum.

Eftir hlé stigu Gómarnir aftur á sviðið og luku þeirri syrpu með hinu ógleymanlega lagi Bí, ba, búmm og að því loknu sameinuðu listamennirnir krafta sína og ekki versnaði kvöldið við það.

Ragnar flutti mörg sinna kunnustu laga auk þess að bæta við nokkrum héðan og þaðan. Hann hafði á orði að þegar hann kæmi hingað norður og sæi þá fegurð sem hér væri allt um kring, fyllti það hann stolti yfir því að vera Íslendingur. Söng hann í kjölfarið lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar við ljóð Margrétar Jónsdóttur, Ísland er land þitt, og reis fólk þá úr sætum og stóð á meðan. Það var mögnuð stund. Þar á undan hafði Þorgeir Ástvaldsson sungið Ég fer í fríið, eins og hann einn kann.

Síðasta lagið Ragnars var Vertu’ ekki að horfa svona alltaf á mig og þá ætlaði allt vitlaust að verða, og dansinn var stiginn ótæpilega.

Varla þarf að taka fram að tónlistarflutningurinn var sömuleiðis hreint afbragð, eins og við mátti búast. Um hann sáu Sturlaugur Kristjánsson, Kristján Dúi Benediktsson, Ragnar Páll Einarsson, Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson.

Já, fimm stjörnu kvöldskemmtun og glæsileg byrjun á Síldardögum, það er víst.

Vandaður flutningur Gómanna vakti mikla aðdáun viðstaddra.

Í laginu Bí, ba, búmm gekk mikið á og salurinn tók virkan þátt.Finni Hauks var í miklu stuði …og reytti af sér brandarana …og við það komst Raggi á flug og lét þá koma nokkra góða líka.


Þess á milli söng hann Elvis, Bítlana og fleiri.


Ragnar Páll Einarsson og Magnús Ólafsson.


Höndin var partur af túlkuninni.


Eitthvað fjörugt í gangi.


Og svo rólegra.


Þorgeir Ástvaldsson.

 

Ísland er land þitt var sungið af mikilli tilfinningu.

 

Myndir og texti:
Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is