Fermingarbörn vetrarins í óvissuferð


Fermingarbörn vetrarins fóru í gær í eina litla óvissuferð í fremur rysjóttu veðri, ásamt með prestum sínum, undirrituðum og sr. Sigríði Mundu Jónsdóttur í Ólafsfirði, og kom í ljós um síðir að ferðinni var heitið í Laufás við austanverðan Eyjafjörð. Þar tók sr. Bolli Bollason á móti komufólki, leiddi það til kirkju og hélt þar óformlega og skemmtilega tölu um staðinn og íbúa hans, fyrr og nú. Að þessu loknu var sunginn hinn þekkti sálmur sr. Péturs Þórarinssonar, ?Í bljúgri bæn?, en Pétur var einmitt prestur þarna um árabil.

Eftir kyrrðarstund var farið í ratleik, og svör og úrslit síðan kynnt á heimili sr. Bolla og þáður drykkur og meðlæti.

Eftir þessa góðu heimsókn var ekið sem leið lá til Akureyrar þar sem pizzahlaðborð beið svangra ferðalanga á Greifanum. Í Fjallabyggð kom hópurinn aftur um kvöldmatarleytið.

Er þetta í fyrsta sinn – en örugglega ekki það síðasta – sem Siglufjarðar- og Ólafsfjarðarsöfnuður taka höndum saman um slíka reisu með fermingarbörn sín, og má ekki síst þakka það tilkomu Héðinsfjarðarganga sem gjörbreyta allri aðstöðu til samvinnu byggðarlaganna hér yst á Tröllaskaga.

Hér má líta svipmyndir úr þessari dagsferð út í buskann og einnig á þessari vefslóð.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is