Hreint vatn bjargar mannslífum


Í dag, fimmtudaginn 6. nóvember, munu siglfirsk fermingarbörn vetrarins ganga í hús og afla fjár til vatnsverkefna í Afríku eins og önnur börn á þeirra reki í landinu hafa verið að gera allt frá 3. nóvember.

Tvö ungmenni, þau Irene, 19 ára, og Ronald, 24 ára, komu í síðasta mánuði gagngert til Íslands frá svæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Lyantonde og Sembabule í Úganda og kynntu verkefnið á ýmsum stöðum, m.a. í Siglufjarðarkirkju 16. október, og greindu frá aðstæðum heima fyrir. Irene hefur lokið framhaldsskóla og kennt í grunnskóla og Ronald hefur lokið tveggja ára háskólanámi í félagsráðgjöf og starfað sem sjálfboðaliði að verkefnum í þágu alnæmissjúkra og aðstandenda þeirra.

Þau höfðu frá mörgu áhugaverðu að segja og voru líka spurð um eitt og annað sem brann á áhugasömum hlustendunum og áhorfendunum, sem urðu þarna margs vísari.

Frá heimsókninni 16. október. Ronald bendir á hvar Úganda er að finna á kortinu.

Fátæktin er mikil. Þetta nota börnin í stað fótbolta.

Irene sýnir heimagerðar dúkkur. Annað er ekki til þar víða.

Nærmynd af einni strádúkkunni.

Þarna kynnir Irene einn vinsælan en einfaldan leik, þar sem steinvölur og snerpa koma við sögu.

Svo var dansinn stiginn að hætti Úgandabúa, með þátttöku og við mikinn fögnuð siglfirsku fermingarbarnanna.

Og þarna má sjá hópinn, með íslenska túlkinum.

Í nóvember 2013 söfnuðu íslensk fermingarbörn 8.283.633 krónum til vatnsverkefna í Eþíópíu, Malaví og Úganda.

Sjá nánar hér. Og hér.

Ég bið ykkur um að taka jafn vel á móti siglfirsku fermingarbörnunum og undanfarin ár.

Með kveðjum og þökkum,
Sigurður Ægisson

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is