Ferming í Siglufjarðarkirkju á hvítasunnudag 1933


Í kjölfar fermingar í Siglufjarðarkirkju í gær er áhugavert að lesa um fermingu í sömu kirkju árið 1933. Þarna er um að ræða svör ónafngreinds einstaklings við einni spurningaskrá Þjóðminjasafns Íslands. Skrifið er að finna í Sarpi.

Orðrétt segir:

Það þótti eðlilegt að öll börn sem tilheyrðu
þjóðkirkjunni yrðu fermd, um það var aldrei rætt. Var fermdur á
hvítasunnudag 4. júní 1933 af séra Bjarna Þorsteinssyni sóknarpresti á
Siglufirði, þá á sjötugasta og öðru ári. Við vorum fermd í nýrri kirkju,
vígð 28. ágúst árið áður. Undirbúning undir ferminguna annaðist Tryggvi
Kristinsson kennari og organisti við kirkjuna. Hann kenndi kristinfræði
og söng við barnaskólann sem að þá voru fjórir vetur. Presturinn kom
nokkrum sinnum í skólann fyrir ferminguna og taldi okkur hæf til
fermingar, við vorum þrjátíu. Okkur voru kenndar biblíusögur alla
veturna og kverið þann síðasta. Æskilegt var talið að kunna þrjá eða
fjóra sálma. Ekkert var prófað, það var gert í skólanum. Ekki man ég til
þess að nokkur félli á prófinu þó kunnáttan hafi án efa verið misjöfn.
Ég tel að flest fermingarbörnin hafi farið til messu a.m.k. síðasta
veturinn. Veit ekki hvort fylgst var með mætingum. Móðir mín fylgdist
með mér og hlýddi mér yfir og leiðbeindi svo sem þörf var á. Engar
æfingar voru fyrir athöfnina. Fyrir ferminguna voru saumuð á mig
jakkaföt, þau fyrstu sem ég eignaðist og án efa eftir tísku. Ekki man ég
til þess að neitt væri rætt um hvernig fötin ættu að vera, ég var bara
sendur til klæðskera sem sá um það sem gera þurfti. Ég var að sjálfsögðu
klipptur og þveginn, annars þurfti ekki með. Að sjálfsögðu var ég
montinn með að vera kominn í jakkaföt og þóttist maður með mönnum.
Fermingarkyrtlar voru óþekktir á þessum tíma. Sálmabók held ég að flest
börn hafi fengið, eftir hönskum man ég ekki. Ég tel að athöfnin hafi
verið virðuleg og farið vel fram enda fyrsta ferming í hinni nýju
kirkju, kirkjan þétt setin og mikill og hátíðlegur söngur. Ekkert man ég
hvað presturinn sagði, það hefur vafalaust verið heilræði og hvatning
til okkar um að verða nýtir þjóðfélagsþegnar enda mikill framfaramaður.

Tekið
var til altaris að fermingu lokinni. Með mér voru móðir mín og yngri
systkini, faðir okkar var á sjúkrahúsi og átti þaðan ekki afturkvæmt,
eldri bróðir minn var í Noregi og eldri systir í hjúkrunarnámi á
Landspítalanum. Man ekki eftir myndatökum. Breyting á högum mínum varð
sú að ég fór strax að vinna, var reyndar byrjaður áður til þess að létta
undir með móður minni, sem átti fjögur börn yngri en mig. Vegna
aðstæðna var engin veisla, móðir okkar og við systkinin drukkum saman
mjög fábreytt og engin skemmtun. Engar gjafir fékk ég, utan sálmabókina.
Tel að almennt hafi ekki verið mikið um gjafir enda kreppuár og oftast
mjög lítil atvinna að vetrinum. Prestinn var ég búinn að þekkja lengi og
hann skírði mig. Ég leit alltaf upp til hans, fannst stórbrotinn
persónuleiki þó fannst mér hann á þessum tíma vera gamalmenni. Þekki
ekkert, hinsvegar voru farnar svokallaðar ?fullnaðarprófsferðir? og
fórum við í Mývatnssveit.

Sjá líka frétt hér 13. október 2013.

Jón Helgason, þáverandi biskup, vígði Siglufjarðarkirkju 28. ágúst 1932.

Hann var glúrinn teiknari og vatnslitamálari og gerði þessa mynd af kirkjunni daginn fyrir vígsluna,

hefur sennilega ætlað að setja í hana liti síðar en ekki orðið af því.

Sjá hér.

Hér er vatnslitamynd hans af gömlu kirkjunni á skólabalanum, sem byggð hafði verið árið 1890.

Sjá hér.

Myndir: Sarpur.is.

Texti: Sarpur.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is