Ferðamenn heillast


„Sagan breytist ekki þó tíminn líði og vægi síldar í sögu íslenskrar þjóðar vegur jafn þungt þó frá líði þúsund ár. Saga Siglufjarðar og síldarævintýrisins á landsvísu er einstök,“ segir Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Hún tók við því starfi 1. apríl sl. af Örlygi Kristfinnssyni sem var upphafsmaður að safninu og hefur veitt starfsemi þess forstöðu frá upphafi eða í 20 ár.

Á þeim tíma hefur orðið til heildstætt safn um sögu síldarútgerðar á Íslandi; ævintýris sem var í hámarki á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar þegar Siglufjörður varð fimmti stærsti kaupstaður landsins og þar voru um 12.000 manns á sumrin við síldarvinnu. Árið 1966 skapaði síldin 44% þjóðartekna Íslendinga. Þremur árum síðar var hún horfin.

Myndarlegir karlar

Síldarrómantík er alþekkt hugtak. Síldarvinnan var erfið og aðbúnaður fólks oft slæmur – en þrátt fyrir það sér fólk tímabilið í ævintýraljóma. „Fyrrverandi síldarstúlkur hafa sagt mér frá því að engir karlmenn, fyrr né síðar, hafi verið eins myndarlegir og þeir sem voru á síldveiðum. „Bestu ár lífs míns,“ segja þær margar,“ segir Anita og heldur áfram. „Með síldinni sigldi þjóðin til móts við nýja tíma. Á 40 árum varð lítið og fámennt þorp að fimmta stærsta bæ landsins þar sem allt snerist um síldina. Lengst af var Siglufjörður einhver mikilvægasta höfn landsins og nokkrum sinnum fór síldarútflutningur frá Siglufirði yfir 20% af útflutningi landsmanna. Í þessu Klondike Atlantshafsins ríkti sannkölluð gullgrafarastemning.“

Anita var byrjuð að vinna á Síldarminjasafninu árið 2001, þá 13 ára gömul. Húnvar þá að ryðhreinsa ýmsan vélbúnað sem svo var komið fyrir í safnhúsinu Gránu, þar sem sögu bræðsluiðnaðarins eru gerð skil. Næsta sumar fékk hún störf í afgreiðslu og þannig rúllaði boltinn áfram. Árið 2011 var Anita ráðin rekstrarstjóri safnsins og sinnti því starfi uns hún tók við stöðu safnstjóra nú í vor.

Mörg stór verkefni eru framundan hjá Síldarminjasafninu. Þar ber hæst endurbygging svonefnds Gæruhúss frá Akureyri sem nú hefur verið komið fyrir á safnsvæðinu á Siglufirði. Það nefnist nú Salthúsið og verður varðveisluhús. Stærstur hluti hússins verður ætlaður til varðveislu á safnkostinum. Þar að auki verður sett upp ný sýning um veturinn í síldarbænum; verkalýðshreyfinguna, togaraútgerðina, skíðaíþróttina og þar fram eftir götunum. Í syðri hluta hússins verður einnig aðstaða til gestamóttöku, safnverslun og kaffiaðstaða.

Tíu ára verkefni

„Endurreisn hússins er kostnaðarsamt verk. Í upphafi var sett tíu ára verkáætlun, þar sem markmiðið er að stofna ekki til skulda vegna uppbyggingarinnar. Áætlað er að taka húsið í notkun í áföngum eftir því sem verkinu miðar áfram,“ segir Anita og bætir við að þessi uppbygging sé mikilvæg vegna aukinnar áherslu á skráningu, rannsóknir og önnur fagleg störf.

Starfsemi safnsins hefur vakið athygli víða og má þar nefna að það hlaut árið 2004 Evrópsku safnverðlaunin sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu. „Síldarminjasafnið er eina íslenska safnið sem unnið hefur til alþjóðlegra verðlauna, enn sem komið er. Þar að auki hefur Síldarminjasafnið hlotið Íslensku safnverðlaunin og fjölda annarra viðurkenninga og verðlauna. Safnið er því að vissu leyti fyrirmynd – ekki síst vegna sýningarhönnunar og sérstöðu sinnar. Erlendum gestum fjölgar og á síðasta ári voru þeir í fyrsta sinn fleiri en íslenskir. Þeir heillast af stórri sögu þessa litla bæjar,“ segir Anita að síðustu.

anita

Viðtalið í Morgunblaðinu í fyrradag, 13. júní.

Mynd: Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Morgunblaðið (Sigurður Bogi Sævarsson | [email protected]).
Fylgja: Úr Morgunblaðinu 13. júní 2016.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]