Ferðamenn festa sig oft á Lágheiði


?Ferðamenn hafa ítrekað lent í vandræðum á Lágheiði sem enn er ófær vegna
snjóa. Fljótamenn segja merkingum ábótavant. Ekki hefur verið ákveðið
hvenær heiðin verður rudd.? RÚV.is greinir frá þessu í dag.

?Eftir að Héðinsfjarðargöng voru opnuð var vetrarþjónustu hætt á Lágheiði – milli Ólafsfjarðar og Fljóta. Í fyrra var heiðin ekki rudd fyrr en um miðjan júlí. Veturinn nú var ögn snjóléttari en enn er þó talsverður snjór á háheiðinni. Íris Jónsdóttir, á Þrasastöðum, segir að erlendir ferðamenn geri sér margir ekki grein fyrir því að heiðin sé lokuð. Frá því í vor hafa ábúendur á bænum þurft að aðstoða marga sem hafa lent í vandræðum á heiðinni.

?Við reynum nú reyndar sko að stoppa fólk af áður en það fer hérna framhjá okkur og inn á heiðina. Oft er það nú þannig að við þurfum að fara upp eftir og moka og kippa í,? segir Íris.

Í fyrra var kvartað undan lélegum merkingum og úr því bætt. Við Ketilás eru skilti sem gefa til kynna að heiðin sé lokuð en Íris segir það ekki nóg. Þá séu margir með óuppfærð GPS tæki sem beini fólki upp á Lágheiði í stað þess að aka um Héðinsfjarðargöng.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort eða hvenær heiðin verður rudd. Það verður skoðað á næstu dögum.?

Eins og sést á þessari mynd frá því í dag er Lágheiðin ófær.

Mynd: Vegagerðin.is.

Texti: RÚV.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is