Ferðamannastraumur – flóttamannastraumur


Anita Elefsen, starfsmaður Síldarminjasafnsins, hefur tvo undanfarna daga setið alþjóðlega ráðstefnu í Hamborg í Þýskalandi til að kynna Siglufjarðarhöfn gagnvart erlendum skemmtiferðaskipum. Hér heima gerðist það hins vegar í dag (föstudag) að tuttugu  þúsundasti gesturinn á þessu ári kom á safnið. Af því tilefni sendi Örlygur safnstjóri Anítu boð: Langþráðu markmiði náð!

Og Aníta svarar: „Frábært! Er í Köben – búin að vera á ferðalagi síðan 10 í morgun. Urðum að taka lestina til Flensburg og þaðan til Köben – danska lögreglan hefur lokað öllum öðrum leiðum milli landanna vegna flóttamanna. Lestin varð yfirfull af Sýrlendingum á landamærunum og hrikalegt að fylgjast með aðstæðum þeirra. Fólk að troða þeim um borð og kasta matarpökkum til þeirra. Danskir starfsmenn lestanna höfðu ekki samúð með fólkinu og sýndu þeim mikinn kulda og dónaskap að mínu mati. Fólkinu var hrúgað í einn vagn þar sem það sat í sætum, á sætisörmum og í kös á gólfinu meðan aðrir stóðu – í hátt í sjö klukkustundir! Hér fyrir utan Kastrup hefur verið komið upp móttökustöð þar sem fólkið getur fengið að borða, fengið föt, bleiur og kerrur fyrir börnin. Mitt auma hjarta á ansi erfitt með að horfa upp á sorgleg örlög þessa fólks.“

Ljósmynd Anítu, hér fyrir ofan: „Matarpakkar á lestarstöð í dönskum smábæ bíða þess að komast í hendur svangra flóttamanna. Fleiri myndir tók ég ekki – kunni ekki við að taka myndir af flóttafólkinu án þess að hafa til þess leyfi.“

Þessi frásögn, sem birt er með leyfi Anítu, lýsir vel þeim andstæðum sem blasa við okkur Íslendingum í lok mikils ferðamannasumars. Og íhugunarefni hvort við eigum ekki að taka jafn vel á móti öllum, hvort sem þeir koma til okkar frjálsir ferða sinna eða hrekjast burt nauðbeygðir frá öllu því sem þeim er kærast.

Mynd: Anita Elefsen.
Texti: Anita Elefsen / Örlygur Kristfinnsson.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]