Fallegur vetrardagur


Það hefur verið fallegt um að litast í Siglufirði í dag, alhvít jörð, um
6 gráðu frost, nánast logn og heiðskírt. Einhver hlýindi eru þó í
kortunum, með vindi og rigningu á morgun. Og ekki nema örfáir dagar þar
til Blekkill gleypir sólina okkar og heldur fanginni í 10 vikur eða svo.

Mörg dæmi eru þó um lengra sólarleysi en
hér, einkum á afskekktum sveitabæjum sem flestir eru komnir í eyði. Á
Syðra-Firði í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu sést ekki til sólar í 24
vikur. Á Fjalli í Kolbeinsdal í Skagafirði sést sólin ekki í 22 vikur
(154 daga). Á Baugaseli í Barkárdal, inn úr Hörgárdal í Eyjafirði,
gengur sólin undir 8. október, sem gæti bent til þess að þar væri
sólarlaust í rúmar 20 vikur. Á Hvammi í Hjaltadal í Skagafirði sést ekki
til sólar í rúmar 19 vikur (135 daga). Og á Svartagili í Norðurárdal í
Borgarfirði er sólarlaust í 18 vikur.

Við tökum því brotthvarfi hinna vermandi geisla með jafnaðargeði, enda líka veisla sem bíður okkar 28. janúar 2013. Og hún ekki lítil.

Siglufjörður um kl. 13.00 í dag.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is