Fálkinn og dúfurnar


Fyrr í haust varð mikið fjaðrafok í dúfnahópnum, sem fóðraður er framan við Ásgeirsskemmu við Snorragötu, þegar fálki steypti sér úr lofti og hremmdi eina í hádegismatinn. Þetta endurtók hann nær daglega í tvær þrjár vikur og að sögn Kidda Konn sem fylgdist vel með var hann með dúfu í klónum annan hvern dag.

Mikil taugaveiklun varð í hópnum og héldu dúfurnar sig að mestu innandyra nema þegar þær heyrðu í bílum helstu og bestu fóðurgjafa sinna, t.d. Steingríms Kristins, Magnúsar Björgvinssonar, Elsu Matt og Jóns Hólm. Þá flykktust þær út og umkringdu þessa velunnara sína þannig að þeir urðu næstum ósýnilegir í vængjamekkinum. Samt kom fálkinn á steypiflugi þótt fólk væri nærri. Sumir voru nokkuð reiðir og fullir samúðar í garð lítilmagnans – meðan aðrir dáðust að þessu sjónarspili náttúrunnar þegar ránfuglinn sýndi kraft sinn og fimi í lífsbaráttunni.

Síðast sást til hans laugardaginn 25. október þar sem hann sat á mæni Landmarkshúss og fylgdist með umferðinni kringum Ásgeirsskemmu.

Daginn eftir rakst Jóhannes Friðriksson á blautan og eymdarlegan fugl í myrkri heima við hús sitt á Fossvegi og hafði strax samband við helstu fuglaáhugamenn staðarins. Fálki var það og var hann gómaður undir grenitré, settur í kassa og strax undirbúinn flutningur á honum suður í Húsdýragarð til aðhlynningar. En hálftíma eftir að hann komst í húsaskjól gaf hann frá sér væl og var þegar dauður.

Næsta dag fór hann suður, frosinn og innpakkaður í plastpoka. Samkvæmt lögum ber að koma þessum alfriðaða fugli í hendur sérfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun – þótt dauður sé. Þar verður hann skoðaður, mældur og krufinn og dánarorsök metin.

Dúfurnar og vinir þeirra hafa hinsvegar hresst og tekið gleði sína á ný – og það er ekki að sjá að fækkað hafi alvarlega í hópnum.

Fálkinn á mæni Róaldsbrakka; dökkbrúni liturinn og grá nefrótin benda til að hann sé ungfugl.

Dúfurnar inni hjá sér lafhræddar – og varpið dottið niður.

Sá grimmi dúfnabani frosinn og innpakkaður í höndum syrgjandi vinar.

Myndir: Sveinn Þorsteinsson, Örlygur Kristfinnsson og Guðný Róbertsdóttir.
Texti: Örlygur Kristfinnsson.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is