Fálkaorðan og Siglufjörður


?Hin íslenska fálkaorða er íslensk heiðursviðurkenning veitt einstaklingum, bæði íslenskum og erlendum. Nýjum orðuhöfum er oftast veitt viðurkenningin 1. janúar eða 17. júní.? Þessar upplýsingar er að finna í alfræðiritinu Wikipedia. Jónas Ragnarsson hefur tekið saman lista yfir þá Siglfirðinga, sem orðið hafa þessa heiðurs aðnjótandi. Þeir eru ellefu talsins.

En áður væri fróðlegt að rýna aðeins í sögu fálkaorðunnar. Hún er fengin af vef forsetaembættisins (http://forseti.is/Falkaordan/Agripafsogufalkaordunnar/) og er svofelld:

Með konungsúrskurði frá 3. október 1903 var ákveðið, að skjaldarmerki Íslands skyldi vera ?hvítur íslenskur fálki á bláum grunni.? Fannst mönnum veglegra að nota þennan svipmikla, harðgera og tígulega fugl sem tákn landsins en þorskinn. Það hefur verið sagt, að íslensk skáld og íslenskir fálkar hafi samhliða um þriggja til fjögurra alda skeið haldið uppi hróðri landsins meðal erlendra þjóða. En þegar sá dagur rann, að erlendir höfðingjar hættu að skilja og meta íslensk skáld, þá héldu þeir áfram að dá fálkann um margar aldir og þóttu íslenskir fálkar konungsgersemi og eru eftirsóttir enn í dag. Veiðar með fálkum er eldforn íþrótt, talin upprunnin hjá hirðingjum í Asíu og fyrst einkum iðkuð í Túrkestan. Um 2000 árum fyrir Krists burð voru fálkar taldir höfðinglegar gjafir í Kína. Veiðiíþrótt þessi barst til Evrópu og var stórhöfðingjagaman þar um margar aldir eins og í Austurlöndum. Á Norðurlöndum voru slíkar veiðar tíðkaðar langt aftan úr heiðni. Það var því ekki að undra, þótt það varpaði nokkrum ljóma á hið fjarlæga Ísland að þaðan skyldu koma bestu veiðifálkar, sem völ var á og voru sendir sem gjafir milli konunga og keisara.

Fálkinn átti nokkra sögu sem opinber táknmynd Íslands: hvítur fálki á bláum grunni var skjaldarmerki Íslands. Fálkinn var í skjaldarmerki Íslands í sextán ár, frá 1903 til 1919. Eftir að breytt var til um skjaldarmerki Íslands árið 1919 og landvættamerkið leysti hann af hólmi er það af fálkanum að segja, að árið 1920 var gefinn út úrskurður um sérstakan íslenskan konungsfána og í honum var íslenskur fálki. Fána af þessari gerð notaði konungur við komu sína til Íslands 1921.

Þegar Kristján konungur X. og Alexandrine drottning heimsóttu Íslands sumarið 1921 var gefið út konungsbréf um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu, undirritað í Reykjavík 3. júlí 1921. Er fálkamynd einkennismerki orðunnar eins og nafn hennar bendir til. Í konungsbréfinu segir m.a. svo: ?Oss hefur þótt rétt, til þess að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenningu, að stofna íslenska orðu, sem Vér viljum að sé nefnd Íslenski fálkinn.?

Konungur Íslands var fyrsti stórmeistari fálkaorðunnar.

Hina upprunalegu orðu teiknaði Hans Christian Tegner, prófessor við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, í samvinnu við Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritara og Poul Bredo Grandjean skjaldarmerkjafræðing. Frumteikningar þeirra eru í vörslu forsetaembættisins.

Í konungsbréfinu voru settar fram hinar fyrstu reglur um fálkaorðuna. Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritari samdi frumdrögin en Jón Magnússon forsætisráðherra lagði margt til þeirra í endanlegri gerð. Reglurnar byggjast að mestu á norskum og dönskum fyrirmyndum en þó var þar að finna nýmæli: þannig var fálkaorðan frábrugðin dannebrogsorðunni dönsku að hana mátti veita konum.

[?]

Með stofnun lýðveldisins árið 1944 varð forseti Íslands stórmeistari fálkaorðunnar.

Annars staðar á vef forsetaembættisins segir aukinheldur:

Orðustigin eru nú fimm: Fyrsta stig orðunnar er riddarakrossinn og flestir orðuþegar eru sæmdir honum. Annað stigið er stórriddarakross, síðan stórriddarakross með stjörnu og loks stórkross. Æðsta stig orðunnar er keðja ásamt stórkrossstjörnu en hana bera einungis þjóðhöfðingjar. Gefist tilefni til getur orðunefnd hækkað einstakling um orðustig.

Og þá er komið að Siglfirðingunum ellefu. Þeir eru:

1. desember 1930:

Bjarni Þorsteinsson sóknarprestur og prófessor, riddarakross (69 ára).

1. desember 1936:

Þormóður Eyjólfsson konsúll, riddarakross (54 ára). Stórriddarakross 1. desember 1942.

1. janúar 1959:

Guðmundur L. Hannesson fyrrverandi bæjarfógeti, riddarakross fyrir embættisstörf og störf að félagsmálum (77 ára).

1. janúar 1959:

Sigurður Kristjánsson forstjóri og ræðismaður, riddarakross fyrir störf að félagsmálum og sparisjóðsmálum (70 ára).

1. janúar 1962:

Andrés Hafliðason kaupmaður, riddarakross fyrir félagsstörf (70 ára).

17. júní 1983:

Jóhann G. Möller fyrrverandi bæjarfulltrúi, riddarakross fyrir félagsmálastörf (65 ára).

17. júní 1985:

Jóhann Þorvaldsson fyrrverandi skólastjóri, riddarakross fyrir störf að félagsmálum og skógrækt (76 ára).

17. júní 1993:

Gestur Fanndal kaupmaður, riddarakross fyrir störf að félags- og atvinnumálum (81 árs).

17. júní 1994:

Halldóra S. Jónsdóttir, riddarakross fyrir störf að félagsmálum (73 ára).

1. janúar 2005:

Örlygur Kristfinnsson safnstjóri, riddarakross fyrir framlag til uppbyggingar Síldarminjasafnsins (55 ára).

17. júní 2010:

Magðalena Hallsdóttir, riddarakross fyrir störf í þágu aldraðra og sjúkra (81 árs).

Stórriddarakross.

Orðuband karla.

Riddarakross.

Orðuband kvenna.

Riddarakross.

Orðuband karla.

                                                                                                          

Orðuhafar 17. júní 2010.

Magðalena Hallsdóttir fyrir miðju.


Myndirnar eru af vef forsetaskrifstofunnar (http://forseti.is).

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is og Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is