Eyrnakonfekt


Róbert Óttarsson, bakari á Sauðárkróki, á afmæli í dag, er 38 ára. Hann er sonur Óttars Bjarnasonar og Þórdísar Ingimarsdóttur og því Siglfirðingur út í gegn. Pilturinn er að gefa út sinn fyrsta geisladisk, sem væntanlegur er til landsins eftir helgina. Sá nefnist Æskudraumar og hefur að geyma níu lög, hvert öðru betra. Sum eru gömul, alkunnir standardar með Björgvin Halldórssyni, Vilhjálmi Vilhjálmssyni og fleirum, en önnur ný, gullfalleg. Flest eru á íslensku, eitt á dönsku og enn eitt á ensku. Og vel er blandað saman rólegu og hröðu.

Hljómsveitin er þannig skipuð, að á trommum er Gunnar Illugi Sigurðsson, á rafgítar leikur Reynir Snær Magnússon en annað er í höndum á Sorin Lazar – bassi, kassagítar, forritun, upptökur og hljóðblöndun og eitthvað fleira. Sá er tónlistarkennari, rúmenskur að ætterni, og kann greinilega eitt og annað fyrir sér í þessu efni. Ólöf Ólafsdóttir og Ásdís Gudmundsdóttir syngja bakkraddir í einu laganna.

Öll voru þau tekin upp í Pro Tools HD2 kerfi nema eitt, sem var tekið upp í Pro Tools LE.

Undirritaður fékk í vikunni að kíkja í pakkann, leggja við hlustir, og á ekki nógu sterk orð til að lýsa hrifningu sinni. Undirleikur og öll umgjörð er að sönnu til fyrirmyndar en það sem ber þó allra hæst er rödd söngvarans – næm, djúp og þroskuð. Þarna er á ferðinni náttúrutalent, sem á eftir að ná langt. Á því er enginn vafi.

Hvílík gersemi. 

Útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir 8. janúar næstkomandi og verða auglýstir betur hér þegar nær dregur, það er næsta víst. 

Hér eru tvö sýnishorn. Annað lagið nefnist ?Ein er sú ást? og er eftir Sorin Lazar, og hitt er ?Þú átt mig ein? eftir Magnús Þór Sigmundsson.

Njótið.

Svona lítur plötuumslagið út.

Róbert Óttarsson í stúdíóinu.

Myndir: Aðsendar.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is